135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:13]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og tel að það sé mjög mikilvægt að við ræðum um heilbrigðismálin vegna þess að þar ríkir gríðarleg óvissa og öngþveiti, liggur mér við að segja.

Kveikjan að þessari umræðu er útboð á deild á Landakoti og nú virðist vera komin niðurstaða í það mál. Hæstv. heilbrigðisráðherra heldur því fram hér að það sé mikill sparnaður af þeirri niðurstöðu sem fékkst. Ég velti því mjög fyrir mér hvort það sé sparnaður þegar á heildina er litið vegna þess að komið hefur fram í fréttum að hjúkrunarfræðingar á Landakoti muni áfram annast ákveðinn þátt þjónustunnar. Það er spurning hvort þarna er líka eitthvað verið að fikta í þjónustunni, hvort veita á sömu þjónustu og verið hefur.

Þetta eru allt saman spurningar sem áfram eru uppi og hæstv. heilbrigðisráðherra gaf engar skýringar á því í sínu mikla yfirliti um hvernig þetta hefur verið síðustu árin. En ég held að bæði þjóðin og ekki síst starfsmenn Landspítalans hefðu gjarnan viljað að hann hefði talað aðeins meira um það sem er fram undan. Það er heilmikið fram undan þótt hann vilji ekki láta sem svo sé í málflutningi sínum.

Það er t.d. stór spurning — og það er umfjöllun um það núna í framhaldi af viðtali við forstjórann fyrrverandi: Hvað á að gera í sambandi við menntunarþáttinn? Þar er allt í óvissu. Fram kom í viðtali við Magnús Pétursson að það þarf að vera dálítið af öllu á Landspítalanum til þess að hann geti staðið við það hlutverk sem hann hefur varðandi (Forseti hringir.) menntunarþáttinn. Forseti Læknadeildar tjáir sig líka um málið og segir mögulegt að þetta fari út til (Forseti hringir.) einkaaðila eða sjálfstæðra aðila en kannski ættum við frekar að segja til sjálfstæðismanna. (Forseti hringir.)