135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:15]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar er að skapa svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum en jafnframt tryggja að allir hafi jafnan aðgang óháð efnahag. Þetta stendur skýrt í stjórnarsáttmálanum og á ekki að koma neinum á óvart. Ég hafna því algerlega málflutningi Vinstri grænna sem vísvitandi halda uppi hræðsluáróðri og rugli um stefnu ríkisstjórnarinnar og sem fyrr ræður kreddan ríkjum hjá þeim flokki. Hvernig er hægt að vera á móti útvistun verkefna ef það er tryggt að slíkt mismuni fólki ekki eftir efnahag, sé jafnvel ódýrara fyrir ríkið og tryggi betri eða sambærilega þjónustu fyrir sjúklinga? Það er enginn að tala fyrir amerísku kerfi. Við erum að tala fyrir skandinavísku kerfi sem tryggir öllum jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu.

Auðvitað þarf að undirbúa útvistun á heilbrigðisþjónustu afar vel. Hið opinbera þarf að hafa skýr markmið og kostnaðargreiningu tilbúna áður en slíkt fyrirkomulag er tekið upp. Einnig er mikilvægt að samkeppni ríki á þeim markaði þar sem útvistun fer fram og þá þarf að sjálfsögðu að gæta vel að háskólahlutverki Landspítalans í þessu sambandi.

Markmiðið með auknum einkarekstri eða rekstri sjálfseignarstofnana í heilbrigðisþjónustu er það að betri þjónusta fáist fyrir sömu eða minni fjármuni. Það eru því markmið og árangur þjónustunnar sem skipta máli en ekki leiðin að markinu. Tryggingarverndin og greiðsluþátttakan eru pólitísk ákvörðun en ekki þjónustuformið. Lykilatriðið er að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni og að tryggt sé að ekki sé hægt að kaupa sig fram fyrir röðina.