135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra segist hafa sent friðþægingarbeiðni til starfsfólks á Landakoti eftir framgöngu sína í fjölmiðlum í tengslum við útboðsauglýsinguna í Morgunblaðinu. Mér finnst það ekkert undarlegt eftir þau viðbrögð sem ég varð var við hjá starfsfólki Landakots sem talaði um að það hefði fengið blauta tusku í andlitið.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að einkareksturinn sé til þess fallinn að veita betri þjónustu fyrir minna fjármagn. Reynslan erlendis frá, til dæmis Bretlandi, sýnir fram á að þjónustan við einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu hefur ekki batnað en það hefur tekist hins vegar að spara á kostnað starfsfólksins. Ég ítreka ummæli Magnúsar Péturssonar í Fréttablaðinu í gær þar sem hann talar um tilkostnaðinn við deild á borð við þá sem nú hefur verið boðin út, þ.e. að tilkostnaðurinn við hana sé fyrst og fremst launakostnaður. Það er þarna sem verið er að reyna að spara með einkarekstrinum.

Síðan er hin stóra spurningin hvort Samfylkingin sé lítil sál. Mér finnst hún vera það. Mér finnst Samfylkingin líka vera að taka þátt í markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Bregðum spegli á þá umræðu sem við verðum núna vör við í fjölmiðlum landsins. Þar er talað um pródúkt, um vöruframboð og það er verið að mismuna, hv. þm. Ellert B. Schram, þegar gullkorthöfum Kaupþings eru boðin vildarkjör umfram þeim sem ekki hafa slík kort upp á vasann. Þetta er staðreynd. Það er verið að breyta heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Það er verið að gera það skref fyrir skref.

Ég hef hins vegar ekki fengið svar við meginspurningu minni. Hún er þessi: Hvers vegna er ekki aukið framlag til Landspítalans (Forseti hringir.) eða annarra heilbrigðisstofnana án þess að það sé gert að skilyrði að fram fari útboð af þessu tagi? Ég hefði gjarnan viljað (Forseti hringir.) gera að umræðuefni, hæstv. forseti, ályktanir sem eru núna að berast frá stórum starfshópum innan heilbrigðiskerfisins þar sem kvartað er undan þessari ríkisstjórn.