135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:16]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir frumvarp sem á margan hátt er mjög gott og margt skynsamlegt sem þar er lagt til. Reyndar er sumt þar frekar smátt í sniðum í ljósi síðustu tíma og mönnum þætti það kannski frekar lítið. Ég held að mest sé um vert að menn séu yfirvegaðir og rólegir, sallarólegir en ekki taugaveiklaðir. Það finnst mér einkenna umræðuna dálítið mikið.

Varðandi ræðu hv. þingmanns þá má ég til með að koma inn á Kárahnjúka, þá umhverfisblessun fyrir mannkynið sem Kárahnjúkar eru. Áhrif þeirra á efnahagslífið urðu minni en menn áttu von á. Lækkun vaxta, styrkur Kaupþings sérstaklega sem er kominn með sama lánshæfismat í útlöndum og íslenska ríkið, sem fór inn á lánamarkaðinn og stórlækkaði vexti til launafólks á Íslandi, sem sennilega var mikil búbót, olli þenslu á húsnæðismarkaði. Ég held að það sé aðalástæðan þótt þingmaðurinn nefndi það ekki.

Varðandi þetta þjóðhagsráð þá eru engar hæfniskröfur gerðar til þingmanna eða þeirra sem þar eiga að starfa. Þetta fólk á að fjalla um skuldavafninga, jöklabréf og alls konar verulega flókna hluti. Ég held að það þurfi meira heldur en að kunna að lesa. (GÁ: Þetta er nú hroki.)

Og svo eru það ákvæði til bráðabirgða. (GÁ: Er þetta ekki hroki?) (Gripið fram í: Ertu að tala um verkalýðshreyfinguna?) Nei, ég bara sagði að það þyrfti sérfræðinga. Svo vildi ég tala um ákvæði til bráðabirgða. Í þessu frumvarpi er lagt til að framkvæmdarvaldið leggi fyrir Alþingi frumvörp. Ég mundi nú leggja til að þingmenn semdu sjálfir fjáraukalög sem taka mið af þessu frumvarpi en að öðru leyti held ég að þetta sé ágætisfrumvarp.