135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:20]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það jafnvægisgengi sem krónan ætti að vera í helgast m.a. af stórauknum útflutningi á áli og stórhækkuðu verði á áli á heimsmarkaði, sem styrkir krónuna og tryggir að hún fellur ekki meira. Þessa dagana, bæði í dag og í morgun, er þetta gengi að styrkjast. Það er vegna þess að við erum með mjög sterkan útflutning á grundvelli álframkvæmda ásamt sjávarútvegi, sem er mjög sterkur.

Ég held að það sé mikilvægt að menn taki mjög yfirvegað til máls og ræði hlutina mjög yfirvegað. Markaðir byggja mjög mikið á sálfræði og spurningum um væntingar. Þeir sem ætla að gera atlögu að krónunni hafa ákveðnar væntingar. Þeir byggja t.d. á ummælum í þinginu. Ef ummælin eru taugaveikluð þá vita þeir að það er veikleiki en séu menn rólegri og yfirvegaðri þá sjá menn ekki veikleika.

Ég held að það sé mjög gott að við förum í gegnum þessa umræðu alla til að leita lausna, m.a. að styrkja Seðlabankann. Það er verið að því. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi gert það núna. Hún að sjálfsögðu tilkynnir það ekki ef hún ætlar að leita að lánsfé um allan heim.

Þá kemur til greina að gera samninga við erlenda seðlabanka um gagnkvæman samning, um að menn styrki hver annan ef áföllin koma upp, t.d. norrænu seðlabankana eða seðlabanka Evrópu eða eitthvað slíkt. Það er jú hagur allra seðlabanka að ekki komi til atlögu að einum þeirra eða einu landi umfram önnur. Þetta er eitthvað sem við gætum örugglega unnið að saman. Þess vegna (Forseti hringir.) tel ég að þetta frumvarp sé mjög gott.