135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:43]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður Framsóknar spyr stórt og það er sjálfsagt að gera áhlaup að því að svara því með einhverjum hætti.

Fyrir það fyrsta tek ég eindregið undir með hv. formanni, við eigum bara tvo kosti í peninga- og gjaldmiðilsmálum. Það er annars vegar krónan og núverandi peningamálastefna í einhverri mynd eða, sem er langtímamál, að sækja formlega um aðild að myntbandalagi og fara þær leiðir. Ég hef því alltaf undrast gáskafullt og gálaust tal, m.a. formanns Framsóknar, um að taka bara upp einhverja aðra mynt til að flýja frá krónunni. Ég held að það sé algerlega útilokað mál og við verðum að standa allt öðruvísi að því.

Það er útilokað að fella dóm um það núna, þegar við erum stödd í þessari dýfu, hvort peningamálastefnan hafi gengið sér til húðar eða ekki. Ég vísaði í ummæli hæstv. forsætisráðherra áðan: Þegar við erum komin upp úr þeim öldudal sem m.a. er til kominn, eins og formaðurinn nefndi, vegna þrenginga á hrávörumörkuðum, vegna þrenginga á lánsfjármörkuðum og vegna margs konar ytri hluta sem blandast svo saman við skuldsetningu og langvarandi þensluástand hér heima og kemur út með þeim harkalega skelli núna sem við erum að vinna okkur út úr þessa dagana — í slíkri úttekt kæmi í ljós hvernig hávaxtamyntin og hávaxtastefnan hefur reynst okkur. Hún hefur líka komið okkur í ákveðinn vanda því að menn eru að beita stýrivöxtunum til tveggja hluta sem stundum takast mjög á og er erfitt að ná saman. Það er annars vegar til að draga úr þenslu og hins vegar til að halda genginu í ákveðinni skráningu og viðhalda viðskiptum vegna hávaxtamunar með íslensk skuldabréf og fleira, og það er flókið hlutverk. Þess vegna er spurning hvort í framtíðinni þurfi ekki að ætla Seðlabankanum fleiri vopn til að vinna að verkefnum sínum.