135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:47]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst náttúrlega forláts á því að vera ekki með stefnu Framsóknar algjörlega á hreinu í þessum málum þar sem til dæmis hæstv. forseti lagði það nýlega til að við undirbyggjum tvöfalt þjóðaratkvæði um Evrópusambandsaðild og förum að skilgreina samningsmarkmið. Í svipaðan streng hefur líklega varaformaður flokksins tekið. Formaðurinn hefur talað gegn því að mér skilst og fyrir því að við skoðum einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðlum. Það er ekki við mig að sakast (GÁ: Tala um mál dagsins.) þó að maður ruglist í ríminu. Ég er að svara hæstv. formanni.

Það sem skiptir náttúrlega langmestu máli er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera núna og unnið að dag og nótt síðustu vikur og mánuði, þ.e. að vinna okkur út úr þeim vanda sem núna er uppi og (Gripið fram í.) er til kominn vegna ýmissa hluta eins og við höfum rakið ágætlega í morgun (Gripið fram í.) vegna þrenginga á alþjóðalánamörkuðum, vegna hás verðs á hrávörumörkuðum, vegna langvarandi lánadrifinnar þenslu innan lands og mikillar skuldsetningar þjóðarbúsins. Við erum búin að rekja ágætlega ástæðurnar fyrir þeim óróa og þeim tímabundnu þrengingum sem við erum að glíma við akkúrat núna.

Hitt verkefnið er síðan að greina og taka til leiðirnar sem við höfum út úr því ástandi. Ég held að það liggi ágætlega fyrir — og það hefur skýrst svona dag frá degi í umræðunni — þverpólitísk samstaða um að efla mjög verulega gjaldeyrisforða Seðlabankans og grípa til þeirra ráða sem tiltæk eru og styrkja stöðuna þannig að þetta er nú ekki bitbein í sjálfu sér á milli stjórnmálaflokkanna. Það er hægt að rífast hér lengi og oft um ástæðurnar fyrir því af hverju við erum stödd þar sem við erum stödd. En leiðirnar út úr vandanum liggja nokkuð fyrir. Langstærsta einstaka verkefni stjórnmálanna núna verður náttúrlega að halda aftur af verðbólguþróun, gera allt sem hægt er að gera til að styrkja krónuna aftur þannig að hún nái svona raunstöðu og þannig bægjum við þeim mikla vágesti sem (Forseti hringir.) verðbólgan er frá.