135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[13:09]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við þökkum fyrir þessar upplýsingar úr Hafnarfirði og að sjálfsögðu vonum við að þar sé allt í góðu gengi og það er ánægjulegt að Hafnarfjarðarbær fái lán á góðum kjörum. Það sýnir að menn meta enn hlutina raunsætt en stjórnast ekki endilega af einhverjum hræðsluáróðri sem ég get alveg tekið undir að engar innstæður eru fyrir. Hér hefur borið á góma hið fáránlega háa skuldatryggingaálag á íslenska banka svo maður tali ekki um ríkissjóð.

Ég vil líka taka fram að þær hliðarráðstafanir sem Seðlabankinn gerði á þriðjudaginn eftir páska voru allar að mínu mati skynsamlegar og jákvæðar og hefðu mátt fá meiri athygli og jafnvel má segja þótt fyrr hefði verið. Sennilega hefði Seðlabankinn þurft í samstarfi við fjármálastofnanir að grípa fyrr til ýmissa slíkra ráðstafana. Nóg um það.

Veruleikinn er sá að þjóðhagslegur sparnaður á Íslandi hefur verið á niðurleið og það er mjög óæskilegt. Menn hafa auðvitað í gegnum tíðina verið með ýmis form til að reyna að örva skyldusparnað, þ.e. þvingaðan sparnað eða bundinn sparnað og náttúrlega að sjálfsögðu mikilvægasta sparnaðarformið sem er lífeyrissparnaðurinn. Við værum að sjálfsögðu til viðræðu reiðubúin, við vinstri græn, að skoða það form ef mönnum litist það betur. Það hefur líka verið nefnt í þingflokki okkar að kannski ættum við frekar að leita leiða þar til að auðvelda og örva enn frekar þann sparnað, en það er líka mikilvægt að í boði séu form, kannski mismunandi valkostir almenns sparnaðar. Sú tillaga sem hér er sett fram er auðvitað fyrst og fremst hugsuð í því skyni að reyna að hvetja til og örva almennan sparnað og snúa við þeirri þróun að þjóðhagslegur sparnaður sé á niðurleið. Um leið er þetta aðgerð til að hafa virkan skuldabréfamarkað, sem er mikilvægt, þó að í þessu tilviki væri að vísu um bundinn bréfaflokk að ræða og bundið því að menn ættu bréfin til þess að njóta góðs af skattfrelsinu.