135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:44]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Allt frá því að Íslendingar tóku sér landhelgina fyrst í 12, 50 og síðan 200 mílur, hefur verið deilt um rannsóknir og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. En með landhelginni náðum við stjórn á veiðunum og nytjastofnunum umhverfis landið. Menn deila um hvernig til hefur tekist og hver hlutur Hafrannsóknastofnunar er í því efni.

Gagnrýnin umfjöllun um vísindastarfsemi er auðvitað mjög mikilvæg og Hafrannsóknastofnun hlýtur að taka faglegri gagnrýni vel. Það má hins vegar ekki rugla saman faglegri gagnrýni á rannsóknarstefnu og rannsóknir og svo aftur gagnrýni á kvótakerfið sem slíkt og þann óskapnað sem úr því varð með lögfestingu á framsalinu. Það má segja að það hafi verið stunduð hér fiskileit fram undir 1970 en eftir það hefur stofnmatið verið aðaláherslan ásamt fjölstofnarannsóknum hjá Hafró. Meginstefið allan þennan tíma hefur í raun verið hið sama, þ.e. að draga úr veiðum á ókynþroska fiski og tryggja tiltekna stærð hrygningarstofnsins. Ég tel að það þurfi að efla þessar rannsóknir en einnig umhverfisrannsóknir, ekki síst núna í ljósi loftslagsbreytinga, og nýta og virkja þá þekkingu sem sú nálgun veitir til að bæta áreiðanleika stofnmats og veiðiráðgjafar.

Herra forseti. Ég vil nefna eitt atriði og það er að nýlegar rannsóknir benda til þess að þorskstofninn í hafinu umhverfis landið sé ekki einn heldur séu þar margir smærri stofnar. Veiðiráðgjöfin miðast hins vegar við að þorskstofninn sé aðeins einn og því er hætt við að sumir stofnar séu vannýttir og aðrir ofnýttir með núverandi veiðifyrirkomulagi.

Ég tel að það séu ekki aðrir betur til þess fallnir en Hafrannsóknastofnun að safna og meta þau gögn sem fyrir liggja (Forseti hringir.) varðandi þorskstofninn en ég tel brýnt að efla hafrannsóknir almennt, (Forseti hringir.) bæði hjá Hafrannsóknastofnun og hjá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands.