135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:49]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef nú ekki sömu reynslu og hv. þm. Grétar Mar Jónsson, ég hef aldrei leikið handbolta en hins vegar prófað annað. En auðvitað er Hafrannsóknastofnun ein af mikilvægustu stofnunum þjóðarinnar vegna þess að störf hennar og ráðgjöf skipta verulegu máli fyrir þjóðarbúið. Það hefur verið þannig að um langan tíma hefur staðið töluverður styr um stofnunina. Sjómenn og aðrir hafa ekki verið fyllilega sáttir við niðurstöður sem frá henni koma. Skemmst er að minnast ráðgjafar á síðasta ári sem varð til þess að ákveðið var að skera niður þorskveiðar.

Nú um þessar mundir verða sjómenn víða um landið varir við mikla fiskgengd. Ég þekki það á mínu heimasvæði, Breiðafirði, þar sem er gríðarlega mikil fiskgengd og þorskurinn mun betur haldinn núna en oft áður, í holdum og stærð, þannig að sjómenn átta sig hreinlega ekki á samhengi hlutanna en það er alveg skiljanlegt.

Ég nefni annað dæmi þar sem menn telja að þurfi að leggja í frekari rannsóknir. Það tengist hinu gríðarmikla síldarmagni sem verið hefur í Breiðafirði og sérstaklega í Grundarfirði. Heimamenn hafa bent á að það þurfi að rannsaka þetta frekar og meta stofnstærðina. Menn telja að um það mikið magn af síld sé að ræða að hægt sé að auka síldveiðar verulega og það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra hefur eitthvað um þetta mál að segja í þessari umræðu. Það er auðvitað óheppilegt að styr standi um þessa mikilvægu stofnun. Sjómenn telja að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til þekkingar og reynslu þeirra en ég veit hins vegar að Hafró hefur reynt að gera það, þarna er auðvitað mikill fjársjóður sem ber að nýta.

Þetta er stórt og mikið mál og eins og síðasti hv. ræðumaður sagði þá kemst maður ekki víða yfir á tveimur mínútum og nú sé ég að tími minn er búinn. Ég hefði gjarnan viljað segja miklu meira um málið en nú fer hæstv. forseti að slá í bjölluna þannig að ég held að ég láti máli mínu lokið.