135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fiskifréttir voru að koma í hólfin okkar innan í Viðskiptablaðinu. Það hafa ekki margir tekið eftir því. En þar eru nokkrar fyrirsagnir í miðopnu eins og „Fáránlega gott fiskirí“, „Gamlar grobbsögur slá þessu ekki við“, „Hef aldrei fengið jafnmikinn þorsk í dragnót og nú“, bullandi þorskveiði um allan sjó samkvæmt úttekt blaðsins á viðtölum við skipstjórnarmenn vítt og breitt um landið.

Ég mælist til þess við hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann taki mark á þeim mönnum sem starfa í þessari grein og stunda veiðar. Það getur varla verið að þau aflabrögð og ástand þorsksins sem hér er lýst gefi ekki tilefni til þess að endurmeta þá stöðu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið varðandi veiðar á þorski. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera fyrr en seinna, hæstv. forseti. Það mundi að mörgu leyti koma okkur vel. Það væru jákvæðar fréttir fyrir þjóðfélagið í núverandi stöðu. Það er alveg sýnilegt að aflabrögð á fiskimiðunum gefa fullt tilefni til þess að endurákvarða aflann á þorskinum, miklu meiri ástæðu en að leita að loðnunni með ærinni fyrirhöfn, sem ekki tókst svo að veiða. Sem dæmi um það hefur Hafrannsóknastofnun hætt við rannsóknir í Breiðafirði sem áttu að tengjast loðnurannsóknum og ætisupptöku þorsksins — vegna hvers? Vegna þess að það kom engin loðna í Breiðafjörð.

Hæstv. forseti. Það er grafalvarlegt að berja hausnum við steininn — ég leyfi mér að segja eins og einn hv. þingmaður hefur sagt — að stinga hausnum í steininn, hæstv. ráðherra. Ég ætla að vona að hann tolli ekki lengi þar.