135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunarinnar.

[14:00]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með að sjávarútvegsmál skuli vera til umfjöllunar á hv. Alþingi. Í rauninni er það orðið frekar sjaldan sem við ræðum sjávarútvegsmálin þannig að vissulega er ástæða til umræðu nú. Það er full ástæða til að velta þessum hlutum fyrir sér, hvað skal gera, hversu sterkur er stofninn, hversu mikið er að marka rannsóknirnar o.s.frv. Og ég efast ekki um að hæstv. sjávarútvegsráðherra er að velta þessu öllu saman fyrir sér líka.

Vissulega var það mjög stór ákvörðun, sem tekin var af ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra, að draga saman í þorskveiðum eins mikið og raun ber vitni. Við framsóknarmenn vorum ekki þeirrar skoðunar að svo langt hefði átt að ganga. Við vildum fara í 150 þús. tonn þegar ríkisstjórnin sagði 130. Þau 20 þús. tonn sem þar eru á milli hefðu virkilega getað skipt máli. Tillaga okkar byggðist á niðurstöðu eða tillögu frá Norður-Atlantshafsfiskveiðiráðinu þannig að hún var ekki gripin úr tómarúminu. En það þýðir ekki að tala um það. Þetta varð niðurstaðan og ég heyri það á máli hæstv. ráðherra að hann er ekkert að velta því fyrir sér að gera breytingar þar á. En auðvitað bíðum við öll eftir því hvað kemur næst frá Hafró. Hafrannsóknastofnunin er mikilvæg vísindastofnun og ég hef ekki ástæðu til að gera lítið úr því sem þaðan kemur þó að vissulega sé það umdeilt.

Ég vil að síðustu segja við hv. málshefjanda að miðað við það sem hann sagði áðan um stöðu þorskstofnsins hlýtur að vera mjög stutt í að hann verði stuðningsmaður kvótakerfisins.