135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunarinnar.

[14:05]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Mér hefur fundist hún málefnaleg. Það sem ég held að hafi staðið upp úr í henni er að mikill samhljómur er í því að svarið sé fyrst og fremst fólgið í því að auka rannsóknir. Menn kalla almennt eftir því að hafa betri upplýsingar um það sem við getum síðan lagt til grundvallar þegar við tökum ákvarðanir okkar.

Það er það sem við höfum verið að gera. Ég nefndi áðan hvernig við höfum brugðist við gagnrýni á togararallið. Ekki er hægt að segja annað í þeim efnum en að reynt hafi verið að breyta því ralli á uppbyggilegan hátt og við höfum lagt til þess 150 millj. kr. til viðbótar á þremur árum. Það eru umtalsverðir fjármunir sem við leggjum í það að geta þannig betur lagt grunninn að því að átta okkur á stöðu fiskstofnanna og stærð þeirra, sem ætti þá að skila sér í nákvæmari tillögum af hálfu Hafrannsóknastofnunar þegar þær koma nú í vor. (GMJ: Rallið dugar ekki.) Rallið dugar ekki, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni og þess vegna er tillit tekið til fleiri þátta. Ég ræddi það efnislega við hv. þingmann áðan að ekki er hægt að leggja það sem hann var að vísa til, annars vegar um skyndilokanirnar og hins vegar um rækjurallið, til grundvallar með sama hætti og t.d. togararallið vegna þess að þar er um að ræða mjög afmarkað svið. Hv. þingmaður vísaði í að mikið hafi verið um skyndilokanir árið 2007, það var líka mikið um skyndilokanir 1991–1992, það var mikið um skyndilokanir árið 2000. Hvaða vitnisburður er það? (Gripið fram í.) Er þá líka verið að tala um það, hv. þingmaður, að þegar lítið er um skyndilokanir sé það til vísbendingar um að lítið sé að vaxa upp af smáfiski við landið?

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki þannig sem við getum lagt mat á stærð fiskstofnanna. Hv. þm. Magnús Stefánsson spurði um síldarstofnana. Það er mjög ánægjulegt að vita að síldarstofnarnir hér við land hafa verið að aukast og mælingin á Breiðafirði sýndi að þar var um að ræða 850 þús. tonn af síld. Við getum, þegar vel tekst til, byggt upp fiskstofna okkar, síldin er m.a. gott dæmi um það. Það er það sem við erum að reyna að gera með þeirri stefnumörkun sem við höfum mótað varðandi þorskinn líka.