135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:46]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má ekki snúa svona út úr hlutunum. Hér stendur sá sem sagði strax þegar hann var genginn út úr ríkisstjórn: Það er mikil þensla á Íslandi. Það er mikil hætta á ferðum ef ekki verður tekið á árunum. Ég ætla að viðurkenna það hreinskilnislega fyrir þingi og þjóð, sagði ég á sumarþinginu, að menn taka ekki á árunum eins og þeir þurfa síðustu sex mánuði fyrir kosningar hvað verðbólgu og skerðingar varðar. Ég viðurkenndi að í þeirri ríkisstjórn sem ég sat voru ýmis verkefni sem þurfti að takast á við af meiri hörku en þeim mun frekar bar að gera það eftir að kosningarnar voru gengnar hjá. Ég lærði það hjá Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni, sem voru ágætir efnahagslegir sérfræðingar og stjórnmálamenn á margan hátt, að það væri mjög mikilvægt í upphafi kjörtímabils að taka fast á árum til að geta átt gott tímabil. Það var sannarlega svo að kannski á síðustu tveimur árunum náðum við ekki þeim tökum á efnahagsmálunum sem okkur bar, þetta hef ég allt saman viðurkennt.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við eigum að horfa til norrænnar félagshyggju. Ég hef miklar áhyggjur núna þegar ég sé að ríkisstjórnin hefur gert vin minn, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er nú ekki mikill félagshyggjumaður, að hinu mikla félagsmálatrölli þessa þings. Ég sé það jafnframt núna að búið er að reka og koma frá störfum Magnúsi Péturssyni sem hefur farið með Ríkisspítalana. Það var greinilegt, þegar ég horfði á viðtalið við hann í gær, að tilgangurinn er einn: Núverandi heilbrigðismálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, ætlar að sýna frjálshyggjuliði stuttbuxnaliðsins að hann einkavæði mjög og breyti heilbrigðiskerfinu, enda var komið með Vilhjálm Egilsson, sem ég hélt að væri í fullu starfi, til þess að brytja og skera og pakka niður. Það eru alvarlegir tímar sem blasa við og Samfylkingin lætur Sjálfstæðisflokkinn líklega keyra heilbrigðiskerfið upp í amerískt kerfi en ekki hið norræna.