135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:03]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ávallt skemmtilegt að hlusta á málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals, sérstaklega um efnahags- og skattamál. En af því að hv. þingmaður mælti fyrir í gær alveg sérstöku máli sem var eftirgjöf á sköttum fyrirtækja upp á tugi eða hundruð milljarða króna, þ.e. af söluhagnaði o.s.frv., sem menn hafa fengið frest á á undanförnum árum, þá verð ég að segja eins og er að mér fannst framsetningin skrýtin þegar hann gerði athugasemd við 3. gr. í því frumvarpi sem við ræðum nú þar sem talað er um að vaxtatekjur gætu verið undanþegnar fjármagnstekjuskatti ef ríkið leitaði eftir lánsfjártöku hjá einstaklingum á innlendum markaði. En það er auðvitað annað mál sem rætt var hér í gær og vonandi verður það tekið til betri umræðu og meiri en verið hefur fram að þessu. Það svona stangast á að leggja til að fyrirtæki sem hafa nýtt sér skattfrestun á undanförnum árum sleppi algjörlega við að greiða skatt af viðkomandi fyrirtækjum en vera svo á móti hugmynd sem gæti leitt til þess að innlendir fjármunir fengjust til þeirra nota sem greint er frá í frumvarpinu.

Annað atriði sem mig langar að víkja að, hæstv. forseti, er viðskiptahallinn. Ég heyrði hv. þingmann tala um hann og út af fyrir sig get ég verið sammála honum um að viðskiptahalli og viðskiptahalli geta verið sinn hvor hluturinn eftir því hvernig til hans er stofnað og hvaða arðsemi kemur af því að mynda viðskiptahalla. En ég furða mig samt á því að m.a. undir forustu hv. þingmanns og vinnu fyrir ríkisstjórnarflokkana (Forseti hringir.) skuli ekki hafa verið lagt upp með að skilgreina þennan viðskiptahalla skýrar þannig að við séum annars vegar að tala um viðskiptahalla sem myndar arð til framtíðar og hins vegar viðskiptahalla sem ekki gerir það.