135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Viðskiptahalli sem notaður er í arðbærar framkvæmdir sem standa undir sjálfum sér er að mínu mati ekkert áhyggjuefni, hann veldur ekki neinu. Viðkomandi framkvæmd borgar bara viðkomandi lán og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því.

Það er verra með viðskiptahalla sem myndast vegna eyðslu eins og var hér í gamla daga. Það var miklu verri viðskiptahalli og hluti af núverandi viðskiptahalla er líka eyðsla. (Gripið fram í.) Kannski ekki alveg svo mikið.

Ég vil endilega klára þetta með skatt af söluhagnaði hlutabréfa vegna þess að þegar einhver einn aðili, einstaklingur eða fyrirtæki, kaupir hlutabréf af öðrum býst kaupandinn við miklum hagnaði í framtíðinni og þess vegna borgar hann svona mikið fyrir þau. Hann býst við að hagnaður í framtíðinni verði meiri en ávöxtunarkrafa á markaði og þess vegna borgar hann meira verð fyrir hlutabréfið. Ef ávöxtunarkrafan hækkar á markaði þá lækkar gengi hlutabréfsins, það er akkúrat það sem hefur gerst, sem sýnir hvað þetta er hvikull skattstofn og hve erfitt er að skattleggja hann. Ef hann hefði verið skattlagður að fullu hefði það getað riðið mörgum fyrirtækjum að fullu að vera búin að greiða skatt af eign sem svo hvarf. Þetta eru vandkvæðin við að skattleggja þetta fyrir utan það að menn hafa tvö tæki til að komast hjá því að borga þennan skatt. Annars vegar með því að stofna hlutafélag til að endurfjárfesta arðinn í eða hagnaðinn og þá borga menn aldrei skatt af honum, hagnaður er geymdur þarna alla tíð og hins vegar að flytja hagnaðinn til Hollands, þar er hann skattfrjáls. Og hvað gerðist? Íslendingar sáu ekki peninginn, hann hvarf. Þá er miklu betra að hann verði til á Íslandi með sömu skattalegu meðhöndlun og er í Hollandi.