135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:35]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þrjú atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vildi gjarnan koma inn á. Það er í fyrsta lagi þegar skattar á fyrirtæki breytast, ég kalla það að breytast að fara úr 45% í 18, er það skattalækkun eða skattahækkun? Ef tekjur ríkissjóðs af viðkomandi skatti stóraukast, er það skattalækkun eða skattahækkun? Þ.e. 18% skattur gefur miklu meiri tekjur og meira álögur á fyrirtækin en 45% skattur, er það skattalækkun eða skattahækkun? Það er nefnilega skattalækkun en tekjurnar aukast og það er ekki endilega mælikvarði á það hvort skattar séu að hækka þegar tekjur ríkissjóðs af sköttum hækka. Það er vegna þess að kakan stækkar. Hún stækkar svo óskaplega mikið varðandi hagnað fyrirtækja að lækkun úr 45 niður í 18 dugir ekki til að minnka tekjurnar. Þær jukust samt töluvert mikið.

Önnur spurning. Hv. þingmaður nefndi að framlag til lífeyrissjóða hefði aukist um 2%. Er það ríkisstjórninni að kenna að þjóðin lifir lengur og að fleiri öryrkjar eru í landinu?

Í þriðja lagi að menn geti ekki sparað. Mig langar til að hv. þingmaður segi Þjóðverja það eða Frakka, Norðmanni eða einhverjum manni í Evrópu að hann þurfi endilega að kaupa flatskjá, hann þurfi að kaupa jeppa, hann þurfi að fara til útlanda í ferðalag o.s.frv. Við erum með 8 þúsund fleiri bíla á Íslandi en ökuskírteini. Það þýðir það að það eru 8 þúsund manns sem þurfa að keyra tvo bíla samtímis. Heldur hv. þingmaður að þetta sé allt saman bráðnauðsynlegt og að menn komist ekki af án þess?