135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:42]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að skattar á fyrirtæki hafi verið lækkaðir þá eru opinber útgjöld samt sem áður að vaxa, hlutfallslega miðað við þjóðarframleiðslu, þannig að þau eru að verða um helmingur af þjóðarframleiðslunni. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við völdum á sínum tíma þá var heildarþjóðarframleiðsla eitthvað rétt undir 40%, mig minnir að hún hafi verið 38%. Þrátt fyrir þessa gífurlegu aukningu á þjóðarframleiðslu þá hafa útgjöld hins opinbera, skattheimtan aukist þetta mikið ef þessar hagstærðir eru teknar. Það er bara staðreynd málsins sem við horfum á sem þýðir það að á valdatíma Sjálfstæðisflokksins á hann Evrópumet og sennilega heimsmet í hækkun skatta og fjölgun ríkisstarfsmanna. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er það staðreyndin. Og það er ofan af því kerfi sem þarf að vinda. Það þarf að vinna gegn bruðlinu og búa til þjóðfélag þar sem við gætum sparnaðar hins opinbera og við eigum að byrja þar, hv. þm. Pétur Blöndal, en ekki að vandræðast með neysluvenjur borganna. Við viljum ekki neyslustýringu, við markaðshyggjumenn, að sjálfsögðu ekki. Það er meginatriðið.

Ég get tekið undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að að sjálfsögðu var það skref fram á við að beita sér fyrir einkavæðingu banka. Spurning var hins vegar um það hvort menn hafi gengið nógu varlega um gleðinnar dyr og gætt þess að setja nægilega skýrar reglur þannig að skattborgararnir þurfi ekki og aldrei að verða fyrir búsifjum vegna þess sem hugsanlega gæti komið að því að það hefðu ekki verið settar nægilega skýrar reglur. Það eru atriðin sem við þurfum kannski að horfa fram á, því miður.