135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[16:00]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil, nú þegar kemur væntanlega að lokum þessarar umræðu, þakka fyrir hana og þakka hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni. Hér hafa talað fulltrúar allra þingflokka og formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna. Við höfum í rauninni átt hér út frá þessu frumvarpi okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ágætan eldhúsdag um efnahagsmál sem er efni umræðunnar þó að hún hafi eðli málsins samkvæmt fjallað um efnahagsmálin almennt í þó nokkrum mæli.

Ég vil byrja á því að taka aðeins upp og taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Guðjón A. Kristjánsson, nefndi hér að manni verður óneitanlega hugsað til baka til haustmánaða ársins 2006 og þess vetrar sem þá fór í hönd og síðan alþingiskosninganna og úrslitanna þá fyrir tæpu ári síðan og veltir því fyrir sér: Gæti ekki staðan í stjórnmálum landsins verið dálítið önnur ef þá hefðu náðst fram þau gagngeru umskipti sem þáverandi stjórnarandstöðuflokkar með samstillingu sinni voru auðvitað að reyna að beita sér fyrir, m.a. og ekki síst til að gera verulegt átak í félagslegum efnum til að bæta og jafna lífskjör þeirra lakast settu í landinu? Ég vil leyfa mér að trúa að þeir flokkar hefðu, a.m.k. miðað við uppleggið eins og það var þá, átt að geta náð saman um bæði breyttar áherslur í efnahagsmálum, hagstjórn og atvinnumálum sem hefðu auðveldlega leitt til þess að staða mála væri mun betri nú en hún er. Vandinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn hélt völdum í landinu og stefna hans var og er í aðalatriðum keyrð áfram óbreytt og vegna þess náðust ekki þau gagngeru umskipti í stjórnmálum sem hefði auðvitað þurft, þar á meðal og ekki síst í efnahagslegu tilliti.

Það er upplýst hér, m.a. af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra, að sumt af því sem frumvarp þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ber í sér sé þegar komið til athugunar eða framkvæmda að einhverju leyti af hálfu ríkisstjórnar. Út af fyrir sig er það rétt, það má segja að vissir þættir þessara mála hafi verið að þokast af stað á síðustu dögum. Það er staðfest að ríkisstjórnin sé að athuga aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og það er vel en það er alveg ljóst að það er gert núna við erfiðari aðstæður og þar þarf væntanlega meira til en menn áður töldu að hefði getað dugað. Svipað má segja um aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka frá þriðjudeginum eftir páska. Þar var að hluta til farið inn á brautir sem frumvarpið gerir ráð fyrir í formi þess að dýpka og örva skuldabréfamarkað og koma hlutum á hreyfingu aftur í þeim efnum.

Að öðru leyti er lítið af málum að frétta. Hér eru t.d. lagðar upp, og það kemur inn á það sem hv. síðasti ræðumaður og margir fleiri nefndu, umtalsverðar aðgerðir til að takast á við innra jafnvægisleysi, félagslegt misgengi, félagslegt og byggðarlegt misgengi í landinu sem er auðvitað hluti af okkar vanda og efnahagsvanda þar með talið. Mér fannst hv. þm. Pétur H. Blöndal, þó að hann legði margt athyglisvert inn til umræðunnar, skauta mjög létt yfir þann þátt. Að vísu staðfesti hæstv. forsætisráðherra í febrúarmánuði síðastliðnum, ef ég man rétt, að einhvers konar endurskoðun á mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar væru að nafninu til í gangi en af því hefur síðan ekkert meira fréttst, ekki neitt. Fjölmiðlar spurðust fyrir um það hjá ráðuneytum fyrir nokkru síðan hvar sú vinna væri á vegi stödd og það kannaðist ekkert ráðuneytanna við að það væri neitt í gangi. Er þó öllum ljóst að þau mál eru nákvæmlega jafnóleyst nú og þau voru í febrúar eða nóvember. Fjárhagsleg staða t.d. verst settu sveitarfélaganna er nákvæmlega jafnhábölvuð og hún hefur verið ef ekki versnandi vegna þess að auðvitað horfa mörg þessara sveitarfélaga framan í erfiðari tíma núna eins og þjóðarbúið í heild sinni.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson nefndi það sem er alveg rétt að það hefur staðið yfir endurskoðun á málefnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Honum er ætlað hlutverk í þessu frumvarpi einfaldlega vegna þess að hann er þó það tæki sem vænlegast er til að setja fjármuni í umferð og koma þeim út til þeirra sveitarfélaga sem í mestri þörf eru fyrir þá og þar sem aðstæðurnar eru erfiðastar. Auðvitað er augljóst mál að sveitarfélögin eru nærtækasta tækið til að beita gagnvart svæðisbundnum erfiðleikum sem við vitum að við er að glíma, ekki síst við sjávarsíðuna og núna því miður einnig í vaxandi mæli í sveitum landsins þar sem verulegir erfiðleikar blasa við í landbúnaði.

Það væri líka athyglisvert að ræða það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á — og er skaði að hv. þm. Pétur Blöndal sé ekki viðstaddur, handhafi og fulltrúi frjálshyggjuaflanna hér í salnum stundum — hvort kreppan sem núna gengur yfir heimsbúskapinn kann að reynast svanasöngur nýfrjálshyggjutímabilsins í hagsögunni sem hefur í raun og veru ríkt síðastliðin 30 ár eða svo, allt frá árdögum þeirra Margrétar Thatcher og Ronalds Reagans. Það skyldi nú ekki vera að þetta tímabil væri að komast á endastöð í gegnum þær hremmingar sem þetta módel sem hefur verið leiðarljós, siglingaljós, helstu fjármálastofnananna, Bretton Woods stofnananna, og hefur verið þvingað áfram í heiminum af Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum og flestum vestrænum ríkisstjórnum, troðið upp á þróunarríki og nýfrjáls ríki Austur-Evrópu?

En hvernig er svo útkoman? Hver er svo staðan? Kannski er hún einmitt að birtast okkur í þeim hremmingum sem eru að ganga yfir núna. Að þessi stefna, þessi dólgakapítalismi og græðgisvæðing viðskiptalífsins, er að leiða af sér í óskaplegar ógöngur og hremmingar eins og best sést auðvitað í Bandaríkjunum þar sem menn hafa algjörlega misst tökin og lent út í viðskipti sem leiða síðan af sér stórfelld töp og áföll og jafnvel gjaldþrot. Það má segja að það sé dálítið merkilegt að umræðan skuli ekki vera meiri og þyngri þegar t.d. svo er komið að bandaríski seðlabankinn fer í það yfir nótt eða kannski var það um helgi að reyna að bjarga einum af stærstu bönkunum og setja hann á þvílíka brunaútsölu að það hálfa væri nóg, til að verjast auðvitað frekari áföllum og til að draga úr þeirri taugaveiklun og þeirri hræðslu sem þegar var brostin á.

Það verður fróðlegt að blaða í bók Sorosar, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér, og má hann gerst til þekkja sá frægi maður hvað það viðskiptaumhverfi og efnahagsmódel sem hann hefur nú lifað og hrærst í sjálfur og grætt mikla peninga í undanfarna áratugi er að leiða af sér yfir heimsbúskapinn. Það verður mjög áhugavert. Margir fleiri mikilsmetnir viðskiptajöfrar í heiminum eru farnir að tala með svipuðum hætti. Það var ákaflega athyglisvert að heyra boðskap Bill Gates þegar hann mætti á fundinn í Davos. Hvað var hann að tala um? Jú, hann vildi beita sér fyrir breyttum áherslum í hinum vestræna markaðsvædda heimi og hann talaði um skapandi kapítalisma „creative capitalism“ í staðinn fyrir hvað? Í staðinn fyrir græðgiskapítalismann, í staðinn fyrir hina hráu nýfrjálshyggju sem hann sagði að ekki væri að leiða til blessunar í heiminum. Ríkasti maður heims sem er búinn að græða þessi lifandis ókjör af fjármunum er í standandi vandræðum með hvað hann eigi að gera við þá, er að reyna að gefa þá af sér og setja þá í sjóði og koma þeim til hjálparstarfs sem auðvitað er ágætt. (Gripið fram í: Hvers lags vandræði eru þetta?) Það eru meiri vandræðin, en hann er kominn að þeirri niðurstöðu að kerfið óbreytt leiði ekki til farsældar í heiminum. Það er athyglisvert að þeir Soros og Bill Gates og margir, margir fleiri sem hafa látið í sér heyra í þessum efnum séu komnir að þessari niðurstöðu. (Gripið fram í: Er ekki …)

Hér uppi á Íslandi stöndum við svo frammi fyrir birtingarmyndum annars vegar þessarar hugmyndafræði og hins vegar ýmsum séríslenskum fyrirbærum sem leggjast þarna saman. Að sjálfsögðu var hugmyndafræðin flutt hér inn, t.d. með ungum mönnum sem komu heim frá námi í Bandaríkjunum og innleiddu hér kaupaukann í íslenskan viðskiptaheim. Þetta var ógurlega fín tíska, bónusar og kaupaukar. Það kom að vísu í ljós að menn fengu næstum því jafnmikið þó að þeir væru að tapa eins og þeir væru að græða, en það er nú önnur saga, og voru ævinlega leystir út með ríkulegum starfslokagjörningum og bónusum þó að þeir væru að hrökklast í burtu með allt í vitleysu. (Gripið fram í: Voru það ekki 300 milljónir eða eitthvað svoleiðis?) Hugmyndafræðin kom hingað og hefur nú heldur betur fengið að geysa hérna. Og þegar svo er komið, að sögn, að tekjuhæsti maður í fjármálageiranum á góðu ári var með tvöföld laun forstjóra stærsta fyrirtækis Norðurlanda, Nokia, þá fara kannski einhverjir fleiri en ég að efast um réttmæti þess. Að einn lítill bankastrákur uppi á Íslandi sé með tvöföld árslaun þessa flaggfyrirtækis Norðurlandanna, Nokia. (Gripið fram í.) Hann má vinna aldeilis vel fyrir sér. (GÁ: Öll laun þingmanna …) Já, upp undir það. Eitthvað á annað hundrað föld meðallaun í viðkomandi fyrirtæki.

Við höfum náttúrlega líka við að glíma hér, og það verður líka formaður Framsóknarflokksins, sem gleður okkur hér með nærveru sinni og líflegum frammíköllum í salnum, að horfast í augu við, við höfum líka hér við að glíma arfleifð frá undanförnum árum sem er okkur þung í skauti, skuldasöfnunina, óráðsíuna, viðskiptahallann og jafnvægisleysið, bæði hið efnahagslega og hið ytra og hið innra líka. Þetta er allt þarna og hverfur ekki og áhugaverð skoðanaskipti voru hér t.d. á milli hv. þingmanna Péturs Blöndals og Jóns Magnússonar um þá hluti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að það er umhugsunarefni við aðstæður þar sem verð á sjávarfangi er eitthvert það allra hæsta í sögunni, að vísu er því miður niðurskurður á afla og loðnuvertíðin var léleg, álverð er vissulega hátt, mikið af ferðamönnum, fleiri en nokkru sinni fyrr komu til landsins en samt er ástandið eins og raun ber vitni. Það er auðvitað vegna þess að efnahagsstjórnin hefur mistekist. Við höfum misst þá hluti úr böndunum. Það var sýnt mikið ábyrgðarleysi og andvaraleysi gagnvart því að láta það ástand halda áfram allt of lengi.

Tíminn leyfir heldur ekki, virðulegi forseti, að fara í langar vangaveltur út frá því sem hefði verið gaman að ræða, m.a. það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hér um viðskiptahallann og eðli hans. Ég held að það sé ekki hægt þjóðhagslega að gera þann greinarmun á viðskiptahalla sem hv. þingmaður lýsir mikið eftir og ég hef heyrt marga fleiri, ekki síst sjálfstæðismenn tala um, að það sé einhver alger eðlis- og grundvallarmunur á viðskiptahalla sem stafi af lántökum og eyðslu ríkis og sveitarfélaga annars vegar og einkaaðila hins vegar. Af þeirri einföldu ástæðu að þegar til kastanna kemur verður þjóðarbúið í heild sem eining að ráða við skuldbindingar sínar, það þarf einfaldlega að borga af skuldunum. Til þess þarf gjaldeyri, til þess þarf tekjur og þá er í sjálfu sér ekkert spurt hver sækir í þann gjaldeyri og þá verðmætasköpun sem þjóðfélagið hefur til að spila úr og borga af. Það er ekki þannig. Að lokum er þetta vandamál þjóðarbúsins, hinnar efnahagslegu einingar í heild sinni, hagkerfisins sem við erum að reyna að reka á sjálfstæðum forsendum á Íslandi, og þess vegna er viðskiptahallinn alltaf jafngrafalvarlegur og raun ber vitni og vaxandi erlendar skuldir hvort sem þær stafa af umframeyðslu einkaaðila eða hins opinbera. Það er vissulega grundvallarmunur á því hvort viðskiptahallinn er vegna fjárfestinga í arðbærum framleiðslutækjum eða verkefnum eða hvort hann er hreinlega vegna neyslu og eyðslu umfram efni. Hvernig stöndum við þá að vígi? Þá er veruleikinn sá, því miður, að næstum tveir þriðju af viðskiptahalla undanfarinna ára eru ekki vegna fjárfestinga, ekki vegna stóriðjustefnunnar og hefur hún þó verið dýr, heldur vegna eyðslu. Það er hið alvarlega.

Hvort einkavæðingin á bönkunum sérstaklega á eftir að reynast sú blessun sem hv. þm. Pétur Blöndal trúir auðvitað á. Það reynir nú kannski einmitt á það þessa dagana, er það ekki? Það eru kannski farnar að renna grímur á einn og einn mann hvort þetta sé allt að gefast okkur og reynast okkur eins vel og menn töluðu um. Svo er það mikill misskilningur að bankarnir og fjármálageirinn hafi fundið upp þann möguleika að fjárfesta í útlöndum og byggja upp starfsemi þar. Ég veit ekki betur en að Eiríkur rauði hafi verið fyrsti útrásarmaðurinn. Síðan höfðu náttúrlega margar greinar íslensks atvinnulífs áratuga reynslu af atvinnurekstri erlendis og umsvifum þar þegar til sögunnar kom útþensla í fjármálageiranum. (GÁ: SÍS og fleiri.) Flugreksturinn allt frá lokum seinna stríðs, sjávarútvegsfyrirtækin og sölusamtök þeirra o.s.frv.

Virðulegi forseti. Að lokum endurtek ég þakkir mínar fyrir þessa umræðu og það er fagnaðarefni að frumvarp okkar gengur nú til nefndar sem vel að merkja verður væntanlega efnahags- og skattanefnd sem ég legg til að málið verði vísað til og þaðan út til umsagna og verður þá hluti af veganestinu sem við höfum til að moða úr á næstu vikum. Vonandi ekki allt of mörgum því að það ríður á að fara að láta verkin tala í staðinn fyrir að sitja á höndum sér eins og mér finnst því miður að allt of mikið hafi verið um af hálfu ábyrgra aðila á undanförnum vikum og mánuðum.