135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[16:15]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem kom fram í máli hv. þingmanns þá er auðvitað ekkert nýtt undir sólinni. Sannleikurinn er sá að frá kyni til kyns eru hlutirnir svipaðir. Við rekum okkur á sömu hættur og hverfum frá einu kerfi yfir í annað og allt fer í hring á þessari jörð, (Gripið fram í.) meira að segja hnötturinn. Við erum því alltaf að læra.

En hinu má náttúrlega ekki gleyma — þegar maður heyrir málflutning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá finnst honum allt hafa verið svart — að gríðarlegur uppgangur hefur verið á Íslandi og meiri tækifæri en nokkru sinni fyrr á síðustu árum. Við megum ekki gleyma því að frá 1991–1995 var mikil kreppa. Þá tóku við velmegunarár. Gríðarlegur fjöldi af ungu og menntuðu fólki flutti heim til Íslands af því það fékk tækifæri í ákveðinni nýsköpun sem hér átti sér stað og aðstæður voru skapaðar fyrir. Hér hófust mikil velsældarár og hafa verið fram undir þetta þótt ýmislegt sé að og alltaf séu verkefni til að takast á við.

Mér fannst t.d. óskaplega gaman að það yrði hlutverk hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að þurfa að taka við, úr hendi Sameinuðu þjóðanna, þeirri niðurstöðu að mest lífsgæði í heiminum árið 2005 hefðu að þeirra mati verið á Íslandi. Þannig var nú staðan og á þann hátt vorum við metin á þeim tíma. En því miður er margt að breytast. Við höfum hér verið að reyna að vekja ríkisstjórnina til dáða en það hefur gengið seint og hægt. Ég held að Samfylkingin ráði og forsætisráðherra hafi verið stunginn því svefnþorni að hann reisir ekki svipu sína, hann skipar liði sínu ekki til verka sem vera ber (Forseti hringir.) við erfiðar kringumstæður.