135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

524. mál
[16:42]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er akkúrat þetta, hv. iðnaðarráðherra, með krókódílana, sem betur fer þá er allur lífdýrainnflutningur bannaður, nema að hann verði leyfður.

Þess vegna trúi ég því nú að sá sem við tók af mér standi þá vakt af mikilli festu því það er auðvitað gríðarlega mikið mál að slíkur innflutningur valdi hvorki spjöllum á dýrum sem ekki geta lifað hér við okkar aðstæður, né að tekin sé sú mikla áhætta sem það gæti haft fyrir íslenskt búfé og íslenska neytendur.

Ég þekki þetta mál frá tíð minni sem landbúnaðarráðherra og þetta er gríðarlega mikið mál og mikil breyting sem fylgir þessu og það er búð að leggja í þetta mikla vinnu. En þetta er auðvitað eins og önnur mannanna verk að því þarf að fylgja vel eftir. Ég er sannfærður um að þær breytingar sem hæstv. ráðherra kynnti hér, bæði í dýralæknaumdæmum og ekki síður hvað varðar Matvælaeftirlitið og allt eftirlit í landbúnaði undir Matvælastofnun sem sameinaðist undir einum hatti, Matvælastofnun sem starfar á Selfossi, gríðarlega öflugt fyrirtæki, að þar hafa menn stigið mjög mikilvæg og stór skref til þess að eiga öfluga stofnun og mikið af fagfólki sem getur staðið þessa mikilvægu vakt fyrir Ísland, fyrir íslenska neytendur til þess að verja Ísland fyrir búfjársjúkdómum og öðru slíku.

Ég treysti því að hæstv. landbúnaðarráðherra muni fylgja því vel eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, landbúnaðar mátti nú ekki vera á undan eins stafrófið sagði til um og því er það sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hér á hlut að máli.

Þegar farið var í þetta mikla verkefni, sem var óhjákvæmilegt og hefur tekið mörg ár og tekur nú ekki allt gildi strax, þá fylgir því auðvitað að það þarf mikla peninga til viðbótar til þess að fylgja eftirlitinu eftir — ég man eftir því að á minni tíð voru teknar ákvarðanir í ríkisstjórn um að verða við því að auka verulega fjármagn til þess að menn gætu staðið slíkar breytingar af sér þegar þar að kæmi — og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni hvað fjárlögin segja í þessum efnum og hver viðhorf hans gagnvart því eru.

Það er engin spurning að þegar við hugsum um Evrópu þá munum við eftir því að þar hafa verið að koma upp gríðarlega alvarlegir dýrasjúkdómar í gegnum tíðina. Eftir kúariðuna sem upp kom líklega 2002 í Bretlandi þá tóku Evrópusambandið og Evrópa mjög á í sjúkdómamálum sínum og hafa hert allt eftirlit sitt og varnir og þar eru menn því á margan hátt miklu betur í stakk búnir nú en áður. Það gerir okkur auðvitað auðveldara fyrir að þeir standi sína vakt af þessari festu.

Ég vil halda því hér fram að ekkert sé mikilvægara fyrir Íslendinga og íslenskan landbúnað en að menn standi þessa vakt. Að menn sýni aldrei linkind í því, því ef slysið verður þá getur það orðið stórt. Íslenskir búfjárstofnar eru þannig staddir að hér eru færri sjúkdómar en annars staðar í heimsálfu okkar. Við erum með heilbrigðari búfjárstofna. Við erum líka með viðkvæmari búfjárstofna af því að við erum eyja úti í hafi og þeir hafa ekki borist hingað.

Hér var minnst á Kanaríeyjar og ég var einmitt að segja þeim þar á ágætum fundi að það væri svo margt hreint á Íslandi, t.d. eru ýmis skordýr og pöddur sem bíta í sólarlöndum sem eru ekki til á Kanaríeyjum og eru ekki til á Íslandi, við búum við mjög mikla sérstöðu. Við eigum í sjálfu sér ekki að taka neina áhættu í þeim efnum.

Ég fagna því að þetta með krókódílana er hæstv. iðnaðarráðherra í minni. Það var ekkert smámál að hafna krókódílum á Húsavík, storkum á Stokkseyri og öðru slíku. Því þessi dýr eru úr allt öðru ríki jarðarinnar og það hefði varðað við dýraverndunarlög að fara með þau inn í íslenskt umhverfi.

Þótt hér sé orðið auðugra dýralíf að sumu leyti, eins og í köttum og hundum og fleiru en áður, þá verðum við alltaf að velta þessu fyrir okkur og vanda okkur líka þar. Þar þurfum við að standa mikinn vörð, þar hefur fjölbreytnin vaxið. En ég trúi því að verði þetta frumvarp að lögum þá verði því fylgt eftir með öflugri starfsemi eins og hæstv. ráðherra boðaði hér og þá þurfum við ekki að óttast framtíðina. En það kallar að eilífu á hið vökula starf.