135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[17:06]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þingskjali 817 en um er að ræða frumvarp til laga um ráðstöfun vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

Á sínum tíma annaðist landbúnaðarráðuneytið samningsgerð við Landsvirkjun vegna uppkaupa á vatnsréttindum í eigu ríkisins sem eru nýtt við Kárahnjúkavirkjun. Meðal þeirra réttinda sem þá komu til sölu voru réttindi kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls á Jökuldal sem eru í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Ráðuneytið tók nú í janúar við greiðslu um 20 millj. kr. frá Landsvirkjun vegna vatnsréttinda jarðanna og fjallar frumvarp þetta um ráðstöfun þeirrar fjárhæðar.

Litið hefur verið á kristfjárjarðir sem sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra. Í stuttu máli má segja að kristfjárjarðir hafi verið gefnar í því skyni að fátæklingar mættu njóta góðs af afgjaldi þeirra. Afla verður sérstakrar heimildar í lögum til ráðstöfunar á kristfjárjörðum þar sem þær eru ígildi sjálfseignarstofnana. Gildir þá einu hvort jörð sé ráðstafað að öllu leyti eða einungis fasteignatengdum réttindum hennar eins og hér er raunin á. Við sölu kristfjárjarða hefur löggjafinn ætíð gert það skilyrði að söluandvirðinu verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárgjafarinnar. Að sjálfsögðu er erfitt að greina með nákvæmum hætti í frumvarpstexta hver þau verkefni eru sem fallið geta að tilgangi eignarformsins. Sú heimild sem felst í frumvarpinu gengur að mínu áliti eins langt og kostur er í þessum efnum og byggir um leið á skýrri fyrirmynd í nýlegri löggjöf. Vísa ég þar til laga frá árinu 2001 um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjali sem með því er sem hefur að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.