135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[17:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nú svo sögulega áhugavert þegar málefni kristfjárjarðanna koma hér til umfjöllunar eins og þau hafa gert með nokkuð reglubundnu millibili á umliðnum árum að maður getur sjaldan stillt sig. Það sem vekur athygli mína núna í þessu sambandi er að hér er um að ræða að tilteknar kristfjárjarðir hafa fengið greiddar bætur vegna vatnsréttinda og nú er spurningin hvernig þeim bótum verði ráðstafað í samræmi við upphaflegan tilgang með ráðstöfun jarðanna á sínum tíma þegar þeir himnafeðgar voru gerðir að landeigendum á miðöldum í því skyni að afrakstur eða afgjald jarðanna rynni síðan til fátækraframfærslu eða til þurfandi íbúa viðkomandi svæða.

Þá var hugsunin sú að um árlegt afgjald af jörðunum yrði að ræða í raun og veru um aldur og ævi. Nú er kannski ekkert við því að gera að sá háttur er hafður á þegar virkjunarréttur er bættur eða fyrir hann greitt að það sé gert með einskiptisbótum framreiknað yfir eitthvert tímabil sem ég reyndar tel og er í vaxandi mæli orðinn sannfærður um að er ekki rétt fyrirkomulag, eru í raun mistök að bæta eða taka í raun undan jörðum í eitt skipti fyrir öll með einskiptisbótum hlunnindi af því tagi. Og einmitt í þessu tilviki vekur það spurningar um upphaflegan tilgang með ráðstöfun jarðanna. Að mínu mati hefði verið betra ef fyrirkomulag þessara hluta væri þannig þarna að viðkomandi rétthafar virkjunarréttindanna fengju árlegar leigutekjur og um leiguafsal á virkjunarréttinum væri að ræða, þannig að þessar jarðir skiluðu jöfnum tekjum jafnt og þétt til síns upphaflega markmiðs.

Nú er það ekki í boði í þessu tilviki því að væntanlega verður bótum fyrir virkjunarréttinn ekki háttað með sérstökum hætti fyrir þessar tvær jarðir einar án þess að ég viti neitt um það hvort það hafi nokkurn tíma borið á góma að handhafi virkjunarréttindanna væri tilbúinn til þess að í staðinn fyrir að greiða einskiptisbætur að greiða þær með árlegum afgjöldum. En þá má líka velta því fyrir sér hvort í þessu tilviki væri ekki eðlilegra að sveitarfélaginu væri gert að stofna sjóð með þeim fjármunum sem þarna renna til og það væri síðan ávöxtun sjóðsins sem árlega rynni til þeirra verkefna sem hér eiga við, hvort sem það væri hægt er að ná utan um það að skilgreina það eitthvað þrengra og meira í anda hinna upphaflegu markmiða en hér er gert að tala bara um félagslegar ráðstafanir.

Það fyndist mér í öllu falli vera meira í anda hinnar upphaflegu hugsunar um kristfjárjarðirnar að afgjald þeirra á ári hverju eða eins og það er á hverjum tíma renni til þessara verkefna. Það mætti að mínu mati hugleiða þann þátt málsins hvort ef til vill væri nær að sveitarfélögin ættu að ávaxta þessa fjármuni með sjálfstæðum hætti í sjóði eða í bókhaldi sínu og verja vaxtatekjunum eða ávöxtuninni á hverjum tíma til þessara verkefna.

Hugsun þeirra sem gáfu kristfjárjarðir á sínum tíma var að sjálfsögðu ekki sú að þurfandi menn eða fátæklingar sem þá voru á dögum nytu þess og síðan búið heldur að þetta fé væri til sífelldrar ráðstöfunar og sífellds stuðnings í þágu þeirra sem þyrftu á stuðningi og aðstoð að halda. En hin virðulega nefnd, sem mun víst vera landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, sem fær þetta mál til ráðstöfunar og er auðvitað ekkert mannlegt óviðkomandi fer kannski eitthvað yfir þetta.