135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

neytendalán.

537. mál
[17:19]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán.

Fyrst skal það nefnt að málið er afrakstur vinnuskýrslu starfshóps eða nefndar á vegum viðskiptaráðuneytisins sem var skipuð í fyrrahaust til að skýra og fjalla um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku. Var mér var skilað þeirri skýrslu í byrjun janúar og þakka ég nefndinni innilega fyrir þá miklu vinnu sem hún réðst í á ótrúlega stuttum tíma og skilaði af sér mjög góðu verki. Lengi hafa verið uppi umræður um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku, hvort sem um er að ræða yfirdráttarheimildir og beitingu á þeim, uppgreiðslugjöld á hina ýmsu lánaflokka, seðilgjöld sem viðbótarkröfur ofan á aðalkröfur án þess að um þær hafi verið samið sérstaklega o.s.frv. Starfshópurinn skilaði þessari skýrslu á þremur til fjórum mánuðum og vinnan í framhaldinu er í mörgum liðum. Fyrir það fyrsta voru gefin út tilmæli til fyrirtækja um að hætta innheimtu og notkun seðilgjalda nema um það hafi sérstaklega verið samið í samningi o.fl. Þá fjallaði nefndin um það að breyta þyrfti lögum um neytendalán með ýmsum hætti til að koma til móts við nokkur markmið vinnunefndarinnar, starfshópsins, sem ég hafði lagt til í erindisbréfi svo sem að skýra heimildir um yfirdráttarheimild, uppgreiðslugjöld og fleira. Er þetta mál eitt af þeim.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 3., 6. og 18. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, og að lögfest verði nýtt ákvæði, 16. gr. a.

Í fyrsta lagi er lagt til að lögfest verði í nýrri 3. mgr. 3. gr. laganna að gjaldtaka vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi skuli vera hófleg og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins og að hún skuli eiga stoð í samningi. Þarna skiptir mjög miklu máli að gjaldtakan endurspegli raunkostnað vegna yfirdreginnar upphæðar en sé ekki föst samræmd upphæð óháð því hve há upphæð var yfirdregin og hvaða kostnaður hlaust af við innheimtu hennar. Það skiptir mjög mikli máli að þessi breyting gangi fram hvað þetta varðar.

Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði í nýrri 3. mgr. 6. gr. skylda lánveitanda til upplýsingagjafar gagnvart neytanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá sem honum eru ekki til hagsbóta. Neytandi á að hafa val um nánar tilgreindar leiðir til miðlunar upplýsinganna. Fjölmörg dæmi eru þekkt þar sem slíkt hefur ekki verið gert, að neytanda hafi ekki verið tilkynnt um breytingar á gjaldskrá sem augljóslega er honum ekki til hagsbóta og mikilvægt að koma í veg fyrir að svo geti verið. Þetta getur skipt miklum upphæðum til lengri tíma er litið og er sjálfsagt að fjármálafyrirtæki beri að greina neytanda frá slíkum breytingum, þannig að hann geti þá tekið afstöðu til þess hvort hann skiptir um fjármálafyrirtæki og leiti þjónustunnar annars staðar o.s.frv.

Í þriðja lagi er lagt til að sett verði nýtt ákvæði, 16. gr. a, um uppgreiðslugjald. Í ákvæðinu er lagt til að bannað verði að krefjast uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir umsaminn lánstíma, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna. Í þeim tilvikum sem lög takmarka ekki samningsfrelsi um uppgreiðslugjald skuli kveðið á um heimild til slíkrar gjaldtöku í lánssamningi. Tilgreina skuli upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær slíkur kostnaður falli á. Lánveitandi geti ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu. Í þeim tilvikum sem lög takmarka ekki samningsfrelsi um uppgreiðslugjald megi fjárhæð gjaldsins að hámarki nema því tjóni sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar fyrir þann tíma sem umsaminn er. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skuli miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta. Ráðherra setji nánari reglur um útreikning á tjóni vegna uppgreiðslu.

Framangreindar tillögur til breytinga á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, eiga rætur að rekja til tillagna starfshóps sem ég skipaði til að gera úttekt á lagaumhverfi, eins og ég nefndi áðan, að því er varðar viðskipti neytenda og fjármálafyrirtækja í ljósi nútímaviðskiptahátta, einkum með tilliti til gjaldtöku. Starfshópurinn skilaði skýrslunni í árslok 2007. Fulltrúar helstu hagsmunaaðila áttu sæti í hópnum, svo sem Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa, Neytendasamtökin, Samtök fjármálafyrirtækja og talsmaður neytenda, auk fulltrúa viðskiptaráðuneytis.

Í fjórða lagi er lagt til að frestur neytanda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár samkvæmt 18. gr. laganna verði lengdur úr einu ári í tvö ár frá afhendingu vöru eða þjónustu, eða í fimm ár þegar um ræðir söluhlut sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti. Þykir heppilegt að gæta samræmis við lög nr. 48/2003, um neytendakaup, og lög nr. 42/2000, um þjónustukaup, að því er varðar tímalengd frests til að bera fyrir sig galla.

Frumvarp þetta felur í sér réttarbót gagnvart neytendum og því er um að ræða mikilvægt frumvarp sem ég vona að nái fram að ganga á þessu þingi. Rétt er að vekja athygli á því, af því hér er um að ræða yfirgripsmikið mál og eitt álitaefni var uppi sem tekur til uppgreiðslugjalds annarra lánaflokka, að væntanleg er ný tilskipun frá Evrópusambandinu um neytendamál sem leysir af hólmi núgildandi tilskipanir á því sviði. Gert er ráð fyrir að öfugt við núgildandi tilskipanir muni væntanleg gerð kveða á um innleiðingu ákvæða í samræmi við orðanna hljóðan, þ.e. full innleiðing. En tillaga framkvæmdastjórnar að nýrri neytendalánaskipan eins og henni verður breytt í meðförum stofnana ESB gerir ráð fyrir að reglur um hámark uppgreiðslugjalds vegna neytendalána verði samræmdar innan Evrópu og takmarkanir á fjárhæð uppgreiðsgjalds tíðkast í mörgum Evrópuríkjum. Veðlán, sem er mjög stór lánaflokkur hér, falla hins vegar utan við gildissvið þessarar tilskipunar. Hinn 18. desember 2007 kom út hvítbók framkvæmdastjórnar um samþættingu veðlánamarkaða og er rannsóknarvinna hafin á vegum sambandsins um það hvort heppilegt sé að setja samræmdar Evrópureglur um veðlán, þar með talið hvað varðar uppgreiðsluákvæði. Samkvæmt því er töluvert langt í land þangað til þeirri vinnu á vettvangi Evrópusambandsins verður lokið, sérstaklega af því að veðlánin falla fyrir utan tilskipunina um neytendalán hjá þeim. Því þótti okkur í viðskiptaráðuneytinu ekki rétt að bíða mánuðum eða jafnvel missirum saman eftir því að breyta lögunum eins og hér er lagt til að gert verði þó svo að við munum að sjálfsögðu taka tillit til og fylgja eftir niðurstöðunni frá Evrópusambandinu eins og gefur augaleið, bæði hvað varðar neytendalánin og veðlánin ef það næst niðurstaða í þau.