135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

neytendalán.

537. mál
[17:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frumvarp þetta skuli komið fram og þakka viðskiptaráðherra fyrir að flytja það. Það eru þó ákveðin atriði sem ber að vekja sérstaka athygli á.

Í 1. gr. er komið til móts við þau sjónarmið sem komu fram fyrir nokkru varðandi innheimtu kostnaðar vegna óheimils yfirdráttar þar sem fjármálastofnanir hafa áskilið sér rétt til að taka ákveðið gjald án þess að skýrar lagaheimildir væru fyrir hendi. Ég tel að þarna sé tvímælalaust komið til móts við og skapaður eðlilegur lagarammi um það sem þar er að ræða.

Varðandi efni frumvarpsins að öðru leyti þá eru tvímælalaust til bóta þær auknu upplýsingar sem þar er um að ræða. Það að upplýsa neytanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá sem eru honum ekki til hagsbóta leggur auknar skyldur á hendur fjármálafyrirtækja og raunar nauðsynlegar vegna þess að í þeim tilvikum sem þarna er um að ræða eru fjármálafyrirtækin alltaf í ofurstöðu gagnvart neytandanum. Neytandinn hefur í raun ákaflega oft takmarkað val og möguleika og nauðsynlegt að hann geri sér grein fyrir og hafi upplýsingar um alla þá valkosti sem fyrir hendi eru hverju sinni.

Það er síðan stórt atriði sem kveðið er á um í 3. gr. varðandi uppgreiðslugjaldið, að óheimilt sé að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds á eftirstöðvum lána í íslensku krónum með breytilegum vöxtum, og ber að fagna að skuli vera komin fram tillaga um það. Vonandi næst þetta atriði lagafrumvarpsins fram sem allra fyrst. Það er þó eitt í því sem ber að skoða, það varðar það atriði þar sem heimila á áfram að semja um uppgreiðslugjald og taka slíkt gjald og að það skuli þá miðað við að þar sé um að ræða þann kostnað sem fellur á lánveitanda eins og segir í 4. mgr. 3. gr.:

„Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald má fjárhæð gjaldsins að hámarki vera það tjón sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar fyrir þann tíma sem umsaminn er.“

Þá velti ég því fyrir mér, þótt þarna sé ákvæði um að hæstv. viðskiptaráðherra setji nánari reglur um útreikning á tjóni vegna uppgreiðslu, hvort ekki væri samt sem áður nauðsynlegt að setja ákvæði um það hvað gjaldið mætti nema að hámarki og miða þá hugsanlega við höfuðstól lánsins. Í sjálfu sér mætti velta því fyrir sér hvort þá mætti miða við að að hámarki gæti það gjald numið einu prósenti af höfuðstól eða hálfu prósenti af höfuðstól. Það er spurning hvaða viðmiðun telst eðlileg. Það líka ákaflega mikilvægt hvernig reglurnar verða mótaðar um það hvað telst til raunverulegs kostnaðar viðkomandi lánveitanda í þessu sambandi, því að sjálfsögðu er það viðfangsefni fjármálafyrirtækja að hafa peningana í vinnu og nýta arð, þ.e. þess vaxtamunar sem þeir fá af því í umræddu tilviki. En kostnaðurinn getur varla orðið miklu meiri en sem nemur þeim vaxtamun sem kann að verða þann tíma sem peningarnir eru ónotaðir og ekki lánaðir öðrum, þ.e. sá kostnaður sem verður vegna frágangs skjala og annars þess háttar. Við erum að tala um minni háttar kostnað í flestum tilvikum.

Við venjulegar aðstæður í þjóðfélagi fellur sáralítill kostnaður á lánveitanda vegna þess að gjaldið er uppgreitt. Það er eingöngu í þeim tilvikum þar sem slíkt offramboð er á lánsfjármagni að lánveitendur eiga erfitt með að koma því í vinnu. Það vandamál hefur ekki verið til staðar í okkar þjóðfélagi svo lengi sem ég man vegna þess að hér hefur verið, ef eitthvað er, frekar lánsfjárskortur en offramboð á lánum ef undanskilin eru nokkur undanfarin ár en þó ekki svo að peningar hafi stoppað inni í lánastofnunum þannig að til tjóns hafi orðið fyrir þær stofnanir og jafnvel um að ræða að það hlutfall sem þeim er heimilað að lána miðað við lánareglur hafi verið mjög rúmt. Kostnaður, tjón lánveitanda í þessu tilviki er því almennt hverfandi ef nokkurt. Það ber að taka tillit til þess varðandi útreikning á tjóni eða meintu tjóni vegna uppgreiðslu lána.

Þess ber líka að geta að í mörgum tilvikum getur verið um hagnað viðkomandi lánastofnunar að ræða við að innleysa peninga og með tilliti til þess verður að vera eðlilegt samræmi á milli þess með hvaða hætti farið er að. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að setja skýr ákvæði um ákveðið hámark sem hægt er að gera kröfu um að lánastofnanir fái greitt þegar um uppgreiðslu er að ræða og það séu skýrar reglur að um raunverulegt tjón lánastofnunar sé að ræða en slíku er sjaldnast fyrir að fara.