135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

neytendalán.

537. mál
[17:40]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir málefnalegar ræður og góðar ábendingar. Þetta er stór málaflokkur og flókinn í sjálfu sér. Það er mikil vinna að fara í gegnum hann og plægja þannig að skýrt sé og skiljanlegt. Nefndinni, starfshópnum um gjaldtökuheimildir fjármálafyrirtækja, tókst það býsna vel og er mjög fróðlegt að fara í gegnum afrakstur þeirra og þá skýrslu sem ég sýndi hér áðan og hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir vitnaði til, og þingmennirnir báðir held ég.

Rétt í lokin vil ég ræða ábendingar hv. þm. Jóns Magnússonar um skilgreiningu á tjóni vegna uppgreiðslu og þá reglugerðarheimild sem lagt er til að ráðherra setji. Nú er verið að vinna tillögu af fræðimanni, nokkurs konar formúlu, sem segir til um hvernig tjónið er metið hverju sinni út frá gengismun og öðrum breytum sem máli skipta og eru áhættuatriði fyrir lánveitandann hvað varðar framtíðarfjármögnun lánaflokksins o.s.frv. Það mun þá koma til umfjöllunar í nefndinni og er sjálfsagt að það liggi mjög skýrt fyrir hvert hámarkið verði og eftir hvaða reglum eigi að reikna út tjónið sem lánveitandi verður fyrir ef neytandi greiðir lánið upp. Það er augljóst mál að það á ekki að vera geðþóttaákvörðun og verður ekki svo þannig að það fer eftir vaxtamun, gengismun og að ýmsu eftir ákveðinni formúlu.

Hvað varðar hitt atriðið sem hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir nefndi þá gat ég aðeins um það áðan að hjá Evrópusambandinu hefur lengi verið unnið við reglur um uppgreiðslugjöld og veðlánin eru þar ekki innifalin heldur einungis neytendalánin sem taka ekki til þeirra lánaflokka sem eru lengri tíma lán — það er töluvert lengra í land með húsnæðislán og hina stóru lánaflokka. Það var mat hópsins og okkar í viðskiptaráðuneytinu að niðurstaða tilskipunarinnar um veðlánin kalli ekki á það að við þurfum að endurskoða eða rífa þessi ákvæði upp aftur, sem lagt er til að bætt verði inn í lögin, heldur sé það þá í mesta lagi nýtt ákvæði um aðra lánaflokka ef út í það er farið af því að lánin eru ólík og lánahefðirnar eftir löndum býsna ólíkar þar sem ábyrgðamannafyrirkomulag sem við þekkjum svo vel tíðkast óvíða o.s.frv.

Það er áríðandi að koma þessum breytingum fram hvað sem líður tilskipunum síðar — fyrst voru bundnar vonir við að niðurstaða væri komin í það þegar þetta mál var unnið en svo reyndist ekki vera. Við töldum þá enga ástæðu til að bíða frekar eftir því en skoða þetta nánar út frá því þegar þar að kemur.