135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

ferðamáti ríkisstjórnarinnar í einkaþotum.

[15:11]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Skilaboðin eru þau að það á að fara vel með opinbera fjármuni og vel með tíma ráðamanna þjóðarinnar. Það er alger fjarstæða að eitthvert pukur hafi verið í sambandi við það að tekin skyldi á leigu sérstök flugvél fyrir ferðina til Búkarest. Pukrið fólst þá kannski í því að fjórum fjölmiðlum var boðið að koma með í ferðina án þess að greiða fyrir flutning vegna þess að kjörin voru það hagstæð að laus voru sæti sem við gátum boðið fjölmiðlum að nýta sér.

Ferðin til Norður-Svíþjóðar, sem farin verður í dag, er á fund og ráðstefnu norrænu forsætisráðherranna sem ég tel mér skylt að mæta á. Það eru ekki sérlega greiðar almannasamgöngur á þetta svæði og þá er þetta spurning um að eyða í þetta tveimur dögum, fjórum dögum eða jafnvel meira eftir því hvernig stendur á almennum samgöngum um þessar mundir. Þetta er útreikningsdæmi og það er auðvitað matsatriði hvað menn geta teygt sig langt umfram það sem áætlunarflugið kostar. Ég tel að allt sé innan réttlætanlegra marka í báðum þessum tilvikum.

Ég hef setið í ríkisstjórn í 10 ár og verið lengi á Alþingi eins og menn vita og það er sárasjaldan sem ég hef séð mig knúinn til að beita þessum aðferðum til að komast leiðar minnar. Það held ég að allir þingmenn viti og það er náttúrlega dæmalaus lágkúra hjá hv. þingmanni og flokksfélögum hans, eins og þau hafa talað um þetta mál að undanförnu, að draga það upp með þeim hætti sem gert er. Það er ekkert annað en lágkúra, hv. þingmaður.