135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

ferðamáti ríkisstjórnarinnar í einkaþotum.

[15:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þá höfum við það. Við sem gagnrýnum þennan flottræfilshátt erum á lágu plani. Við erum að sýna lágkúru. Það er annað sem gildir um ráðamenn þjóðarinnar. Tókuð þið eftir hvað hæstv. forsætisráðherra sagði? Nú vitum við hver skilaboðin eru. Þetta eru skilaboð um húsbændur og hjú. Sem þjóð kunnum við nú að standa frammi fyrir erfiðleikum. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að skapa samstöðu í þjóðfélaginu og að slíkri samstöðu ber ríkisstjórn landsins að vinna, bæði með stjórnarathöfnum sínum en einnig með breytni sinni. Með henni er hægt að hafa áhrif á liðsandann í þjóðfélaginu.

En hvað gerir ríkisstjórnin? Leggur hún áherslu á það sem sameinar? Sýnir hún fordæmi um góða ráðdeild og sýnir hún fordæmi með sanngirni? Nei, hún velur það sem helst er táknrænt um misskiptingu, óhóf og bruðl undangenginna ára. Þetta eru skilaboðin úr Stjórnarráði Íslands.