135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

ferðamáti ríkisstjórnarinnar í einkaþotum.

[15:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Það var athyglisvert, virðulegi forseti, að hv. þingmaður gerði lítið með svarið sem ég gaf honum. Hann las bara upp þann texta sem hann var búinn að skrifa fyrir fram. Jú, hann fór með frasann sem hann fer með í annarri hvorri ræðu um húsbændur og hjú. Ekki var það merkilegur málflutningur, virðulegi forseti.

Auðvitað snýst þetta mál um það að fara vel með opinbert fé. En við sem gegnum störfum í ríkisstjórninni þurfum annað slagið að leggja á okkur ferðalög af þessu tagi. Ekki gerir maður það alltaf með sérstaklega glöðu geði. En ég tel rétt og nauðsynlegt að mæta sem fulltrúi Íslands á þennan fund með því föruneyti sem verður með mér í för. Viðskiptaráðherra er þar sem staðgengill samstarfsráðherra Norðurlandanna og þar eru líka fimm aðrir einstaklingar með. Við reynum að stytta þetta ferðalag eins og við getum og reynum að gera þetta með eins hagkvæmum hætti og hægt er. (ÖJ: Af hverju upplýsirðu ekki um kostnaðinn? Hver er kostnaðurinn?) Það er rétt, það verður ekkert mál að ... (ÖJ: Hver er kostnaðurinn?) Er ekki rétt að þingmaðurinn fái að tala aftur úr sæti sínu? Það er nefnilega ekki hægt að eiga orðaskipti við þingmenn Vinstri grænna vegna þess að þeir gagga eins og hænur úr sæti sínu.