135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að vinna bug á verðbólgu.

[15:24]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir það síðasta sem hv. þingmaður sagði. Ég hef hlustað á hann í efnahagsumræðum á undanförnum dögum og fundist hann tala af miklu viti um þau mál, og meiru en ég átti að venjast hér áður fyrr. En það er hins vegar mikið alvörumál sem hv. þingmaður fjallar hér um og vissulega fjalla bankarnir og greiningardeildir þeirra stundum um þetta á misvísandi hátt. Það segja auðvitað ekki allir það sama.

En ég vil ekki gera annað hér en að endurtaka það sem ég hef sagt: Þessi mál eru til mjög alvarlegrar skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. En hvorki hv. þingmaður né aðrir geta vænst þess að fá við því nákvæm svör hvað er í farvatninu fyrr en þeir hlutir eru komnir á hreint. Og það er ekki málum til framdráttar að vera að knýja á um það hér á Alþingi eða annars staðar þegar verið er að vinna í málunum og ótímabært að tjá sig um einstök atriði.

En við skulum hins vegar gefa því gætur að hlutirnir hafa aðeins verið að snúast við. Allt frá því að ársfundur Seðlabankans var haldinn fyrir tíu dögum og frá því að við áttum síðast umræður um efnahagsmál hér í þinginu fyrir viku hafa markaðir þróast á hagstæðan veg. Krónan hefur verið að styrkjast, m.a. núna í morgun, og hlutabréfamarkaðurinn hefur tekið við sér og er á uppleið á nýjan leik.

Þetta eru mjög jákvæð skilaboð en það breytir því ekki að enn á eftir að leysa lausafjárvandann sem hefur verið að hrjá hina alþjóðlegu fjármálamarkaði og þar með talið hinn íslenska fjármálamarkað. Það verkefni er enn óleyst en það sjá allir og vita að það leysum við ekki að öllu leyti einir eða með aðgerðum innan lands.