135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

umferðaröryggismál á Reykjanesbrautinni.

[15:27]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. samgönguráðherra. Tilefni þess að ég kem hér upp eru málefni Reykjanesbrautarinnar og vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra sérstaklega út í framkvæmdir þar, ekki síst út í umferðaröryggismál. Það þekkja það allir sem þar hafa farið um hversu mikill munur varð á eftir að farið var í framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautarinnar. Málum er hins vegar þannig komið núna að framkvæmdin hefur tafist nokkuð og ástandið er að mínu mati og margra annarra ekki ásættanlegt í augnablikinu með tilliti til umferðaröryggis.

Mér er sagt að frá áramótum hafi orðið alls 23 umferðarslys á spottanum frá Vogaafleggjara til Keflavíkur, líklega er það sá spotti sem um ræðir, og þar af þrjú alvarleg umferðarslys. Þetta er algjörlega óásættanlegt og ég tel að við verðum að grípa til aðgerða. Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að umferðaröryggi verði eflt á þessum stað og hvort hann, jafnvel þó við séum að koma út úr mesta skammdeginu og hugsanlega mestu umferðarhættunni, hyggist beita sér fyrir því á næstunni að gerð verði bragarbót á?