135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessum greinum frumvarpsins og í ákvæði til bráðabirgða er ákveðið að skattaumsvif allra stærstu fyrirtækja í landinu færist á einu bretti úr viðkomandi skattaumdæmum og til skattstjórans í Reykjavík. Slík ráðstöfun gengur að sjálfsögðu þvert á yfirlýsta stjórnarstefnu um að reyna að dreifa störfum og verkefnum með eðlilegum hætti um landið.

Ég hef engin rök fengið fyrir því að ekki megi alveg eins endurskipuleggja þessi mál og efla, eftir atvikum annaðhvort skattumdæmin öll sem slík eða tiltekin umdæmi, þannig að störf sem þessi tengjast geti a.m.k. að einhverju leyti áfram orðið til á landsbyggðinni. Mér finnst fráleitt að í tilvikum sem þessum og aftur og aftur skuli borið á borð alþingismanna í frumvarpstexta að gera hið gagnstæða á við það sem á að heita yfirlýst stefna í tilvikum sem þessum.

Ég sé ekki aðra leið en að greiða atkvæði gegn þessu. Ég tek það fram að það er ekki vegna andstöðu við það að skattamálum stórfyrirtækja sé eftir atvikum skipað með sérstökum hætti en það er þessi flutningur starfa og verkefna frá landsbyggðinni til Reykjavíkur sem ég get ekki annað en verið á móti.