135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er að finna tillögur ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga og er því ætlað að hrinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Almennt má segja um þessar tillögur að þær eru jákvæðar að flestu leyti.

Ef maður lítur til sjónarmiða Seðlabanka Íslands um það hvað beri að gera um þessar mundir í íslenskum efnahagsmálum hvað varðar ríkisfjármálin eru skilaboðin ákaflega skýr. Þau eru á þann veg að til þess að ná utan um ójafnvægið í efnahagsmálunum og koma böndum á verðbólguna þurfi meira aðhald í ríkisfjármálum. Það er sjónarmið Seðlabanka Íslands sem ég held að rétt sé að minna á í þessari umræðu. Það þýðir að ríkissjóður eigi að taka inn meiri peninga en hann setur út. Kjósi ríkisstjórn af einhverjum ástæðum, sem rök kunna að vera fyrir, að auka útgjöld ríkissjóðs að einhverju leyti ber henni, til þess að mæta sjónarmiðum Seðlabankans, að sækja þær tekjur inn aftur með einhverjum öðrum hætti þannig að efnahagsumsvifin aukist ekki í heildina séð.

Ég tek eftir því að í greinargerð með frumvarpinu er fjárlagaskrifstofan í ráðuneytinu að meta umsvifin af aðgerðum sem eru taldar færa 25–26 milljarða til einstaklinga í þjóðfélaginu, fjárlagaskrifstofan er að meta það að af þessu verði aukin efnahagsumsvif í þjóðfélaginu væntanlega vegna aukinnar einkaneyslu sem skili svo ríkissjóði aftur 10 milljörðum kr. inn í ríkissjóð.

Ég held að þegar Seðlabanki Íslands fær frumvarpið til umsagnar, sem hann vafalaust mun fá, muni svör Seðlabankans verða eitthvað á þá leið sem ég hef verið að draga hér fram, að frumvarpið sé líklegt til að vinna gegn viðleitni til að halda aftur af verðbólgu á næstu mánuðum eða á næsta ári. Og Seðlabankinn muni segja við ríkisstjórnina að þetta kunni að vera skynsamlegar aðgerðir gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga en ríkisstjórnin verði þá að koma með tekjuöflun á móti sem vegi upp þessi áhrif.

Ég vil, virðulegi forseti, spyrja hæstv. fjármálaráðherra, af því ég veit að hann þekkir þessi rök Seðlabankans og það sem á bak við þau liggur — ég býst ekki við því að neinn ágreiningur sé milli ráðherrans og Seðlabankans um þetta: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra vinna að því að framfylgja þessu sjónarmiði Seðlabanka Íslands? Hvernig mætir hæstv. ráðherra þessum rökum Seðlabanka Íslands að því gefnu að frumvarpið fari fram og um það sé sæmilega góð samstaða? Hvað kemur þá á eftir hjá ríkisstjórninni til þess að vinna á móti áhrifunum þannig að í heildina sé ekki verið að stuðla að aukinni verðbólgu?

Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að sýna á spilin í þessum efnum. Hæstv. fjármálaráðherra, sem er lykilmaður í stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, þarf að mínu viti, þegar hann gerir grein fyrir þessu máli sínu, að gera nákvæmlega grein fyrir þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ekki eru þá komnar fram til þess að tryggja að ríkisstjórnin sé ekki að grípa til ráðstafana sem auka á verðbólguna.

Ég held að það verði að óska eftir því að hæstv. ráðherra geri grein fyrir framhaldsaðgerðunum sem hljóta að koma á eftir frumvarpinu. Kemur t.d. til greina hjá hæstv. ráðherra og ríkisstjórn að hækka skattana hjá þeim sem hafa hærri tekjur? Við skulum ekki gleyma því að hátekjuskatturinn var lagður niður á síðasta kjörtímabili. Kemur til greina að afla tekna í ríkissjóð á móti umræddum útgjöldum með því að skattleggja þann hóp, þann hluta framteljenda, sem hefur tiltölulega háar tekjur? Það er kannski ástæða til þess, sérstaklega í ljósi upplýsinga um að skattbyrði tekjuhárra einstaklinga hefur minnkað hér á landi en skattbyrði tekjulágra hefur aukist. Frumvarpið er greinilega sett fram til að mæta sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar um að bæta kjör þess hluta þjóðfélagsþegnanna sem hefur tiltölulega lágar tekjur, og fyrir því eru pólitísk rök og eðlileg sjónarmið.

En það er þá fyrsta spurningin, virðulegi forseti: Kemur til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar, í þeim aðgerðum sem hún hlýtur að vera að undirbúa til þess að ná tökum á verðbólgunni, að auka skattheimtuna á tiltekna aðila í þjóðfélaginu, hvort sem það eru launaskattar eða veltuskattar? Eða er það yfir höfuð í farvatninu hjá hæstv. ríkisstjórn að afla aukinna tekna í ríkissjóð til þess að draga úr þensluáhrifunum af frumvarpinu sem eru rakin í greinargerð með því? Tíu milljarða kr. fær ríkissjóður í tekjur til baka af frumvarpinu, og sú einkaneysla sem er þar á bak við er auðvitað hluti af þenslunni í þjóðfélaginu.

En um efni málsins, virðulegi forseti, vil ég segja — ég vil áður en ég kem að því vekja athygli á misræmi í greinargerð með frumvarpinu um kostnaðaráhrif af því, misræmi sem er á milli greinargerðarinnar og fylgiskjalsins frá fjárlagaskrifstofunni.

Í greinargerðinni segir á bls. 3 um áhrifin af hækkun persónuafsláttarins að þau séu talin vera nálægt 15 milljörðum kr. á ári þegar allt er komið til framkvæmda en í fylgiskjalinu segir hins vegar að áhrifin séu talin vera 17 milljarðar kr. Þarna munar 2 milljörðum kr. sem áhrifin eru talin vera meiri í fylgiskjali fjárlagaskrifstofunnar en í greinargerðinni sjálfri á bls. 3 í frumvarpinu.

Áhrifin af lækkun á tekjuskatti hlutafélaga og einkahlutafélaga eru talin minnka tekjur ríkissjóðs um 5 milljarða kr. á bls. 3 í greinargerðinni en á bls. 6 í fylgiskjalinu eru það 6 milljarðar kr. Þarna munar einum milljarði kr. Og heildaráhrifin af öllum aðgerðunum eru talin vera 23 milljarðar kr. á ársgrundvelli á bls. 3 í frumvarpinu en 25–26 milljarðar í umsögn fjárlagaskrifstofunnar.

Þarna er verulegur munur, virðulegi forseti, sem auðvitað kunna að vera skýringar á — kannski er fylgiskjal fjárlagaskrifstofunnar unnið seinna en greinargerðin með frumvarpinu og nýjar upplýsingar hafa skilað þessum útreikningum. En hvað um það, ég held það sé rétt að vekja athygli á þessu misræmi og kalla eftir því að fram komi skýringar á því.

En um málið efnislega, virðulegi forseti. Ef við gefum okkur það sem forsendu að ætlunin sé að setja út 15 milljarða kr. í hækkun á persónuafslætti þá leyni ég því ekki að ég er ekki sammála því sem lagt er til í frumvarpinu að láta þá hækkun ganga upp allan tekjustigann, til allra framteljenda, þar sem krónutalan gengur óháð tekjum. Ég hefði talið skynsamlegast að fara þá leið sem lagt var til í kosningabaráttunni af okkar hálfu — Alþýðusamband Íslands lagði svo til síðar, þ.e. á síðasta ári, að þessir 15 milljarðar færu til þess að gera tekjur þeirra sem hafa 150 þús. kr. eða minna á mánuði algjörlega skattfrjálsar með sérstökum persónuafslætti sem yrði greiddur eftir því hvaða tekjur menn hafa. Það hefði dugað, sú sama fjárhæð, til þess að gera alla þá einstaklinga í þjóðfélaginu skattlausa sem hafa 150 þús. kr. eða minna í tekjur á mánuði.

Það er hópur sem er töluvert stór í þjóðfélaginu, m.a. í hópi öryrkja og ellilífeyrisþega, og þann lágtekjuhóp hefði munað mikið um slíka kjarabót. Ég hefði talið miklu skynsamlegra að verja þessum 15 milljörðum með þessum hætti af því ég held, sérstaklega þegar ástandið er eins og það er, að menn þurfi að sýna aðhald í efnahagsmálum, að hóparnir sem hafa meiri tekjur verði einfaldlega að taka á sig meira af aðhaldinu en lágtekjuhóparnir. Með þessari aðferð ASÍ og okkar hefðum við hlíft lágtekjufólki við því umfram aðra að bera byrðarnar af því að ná verðbólgunni niður.

Lækkun á tekjuskatti hlutafélaga og einkahlutafélaga úr 18% í 15%, sem ríkissjóður lætur þá út 5 eða 6 milljarða eftir atvikum fyrir — ég er almennt séð ekki andvígur því, ég tek slíkri tillögu af nokkurri velvild. En ég vil að það sé alveg öruggt að þessi fyrirtæki borgi skattinn. Ég vil að sá skattur sem fyrirtækjunum er gert að bera verði greiddur, að menn horfi ekki upp á það sem við máttum gera fyrr á þessum þingfundi þar sem var verið að samþykkja eftir 2. umr. frumvarp um að afskrifa stóra reiknaða skatta af fyrirtækjum.

Fyrirtækin eiga að búa við gott skattaumhverfi en þau eiga að borga skattana. Þau eiga að taka þátt í þjóðfélaginu. Þau eiga að spila með í þjóðfélaginu, með okkur hinum. Þau eiga ekki að vera stikkfrí. Þau eiga ekki að geta farið með peningana sína til Hollands eða eitthvert annað og komið sér undan því að borga skattana. Menn eiga að sameinast um að tala við þessi fyrirtæki og eigendur þeirra með tveimur hrútshornum og láta þá skilja að hér ríki velvild í þeirra garð en menn ætlist til að þau taki þátt þjóðfélaginu en spili ekki frítt. Það er sú krafa sem ég geri til atvinnurekstrarins, virðulegi forseti.

Þetta er svona almennt um málið af minni hálfu. Ég held ég fjölyrði ekkert frekar um það sem er að finna í frumvarpinu. Það fer til nefndar og sætir þar skoðun þannig að tækifæri gefst til að fara betur yfir efni þess á síðari stigum málsins.