135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:07]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðustu tölur sem ég sá um skattheimtu hins opinbera fyrir nokkrum dögum — ég held að það hafi verið fyrir síðasta ár eða 2006 — sýndu að skattheimta hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, fór í fyrsta skipti sem ég man eftir yfir 50%, 50,3% ef ég man rétt. Hlutur hins opinbera hefur því farið mjög svo vaxandi á síðustu árum.

Það er líka greinilegt þegar maður skoðar tölur um útgjöld ríkissjóðs að rekstrarútgjöldin hafa vaxið mjög hratt, að raungildi um 10% á síðasta ári og við þekkjum fjárlögin fyrir 2008. Aðgátar er því þörf í ríkisfjármálunum og það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hér hefur verið verulegur afgangur sem hefur auðvitað stafað af hinni miklu veltu. Það út af fyrir sig hefur kannski bjargað því sem bjargað varð.

En ég held að ráðherrann þurfi nú að skoða hlutina í því ljósi að samdráttur kunni að vera fram undan. Ef það reynist rétt sem menn eru farnir að spá þá dregur mjög hratt úr veltutengdum tekjum ríkissjóðs. Þá reynir virkilega á ríkisfjármálin, hvernig tekst að beita þeim til að ná niður verðbólgunni. Það er það sem allt snýst um hjá þjóð sem er sú skuldsettasta í víðri veröld, liggur mér við að segja þótt ég viti nú ekki hvort það sé alveg rétt. Ég tel að það sé næstum því rétt, það er okkar stóra vandamál.