135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:09]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hafa verið ágætar umræður en nú fannst mér aðeins verið komið út í aðra sálma þegar hv. þingmaður fór að tala um hversu mikil skattheimtan væri orðin. Mér fannst hann vera að hvetja til þess að ríkisstjórnin íhugaði að auka skattheimtuna en nú var hann að tala um það að hún væri orðin of mikil. Ég held að ég hafi skilið hann rétt í því.

Það er rétt að útgjöldin hafa auðvitað aukist. Það hlýtur að gerast að einhverju leyti á svo miklum veltiárum. Hann tók saman útgjöldin bæði ríki og sveitarfélög en útgjöldin hjá sveitarfélögunum hafa vaxið miklu meira en útgjöldin hjá ríkinu. Ég held að munurinn séu fjármálareglurnar sem ríkið vinnur eftir, sveitarfélögin gera það í miklu takmarkaðri mæli.

Varðandi síðan stöðuna á ríkissjóði þá er hún góð, það deilir enginn um það. Menn deila kannski um hvort hún fari versnandi. Alla vega eru síðustu tölur um það fyrir fyrstu tvo mánuði ársins þannig að tekjur eru umfram áætlun og gjöld eru undir áætlun og afgangur ársins á þessum tveimur mánuðum er þar af leiðandi umfram áætlun.

Það hefur hins vegar heilmikið verið að gerast á síðustu fjórum, fimm vikum. Það verður þess vegna mjög athyglisvert að sjá hvernig tekjur ríkissjóðs í marsmánuði þróast og auðvitað einnig hvernig þær munu þróast áfram fram eftir árinu.

Það eru blikur á lofti og erfitt að spá í það nákvæmlega hver hagþróunin verður. En ég er ekki viss um að við verðum að glíma við verðbólguna sem stærsta vandamálið þegar áhrifa þessa frumvarps fer að gæta að einhverju ráði.