135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vera mjög langorður enda hef ég sennilega ekki tækifæri til þess, ekki nema fimm mínútur. En ég vil ekki að þessari umræðu ljúki með þeirri staðhæfingu hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin og þá væntanlega ríkisstjórnir sem hér hafa setið á undanförnum árum verði ekki sakaðar um að hafa ekki beitt ríkisfjármálunum til að ná niður verðbólgu. Þær verða einmitt sakaðar um nákvæmlega þetta.

Hæstv. ráðherra tekur það fram sér og sinni ríkisstjórn til málsbóta að umtalsverðum afgangi í fjármálum ríkisins hafi verið skilað ár eftir ár og þetta beri vott um ráðdeild og jafnvel aðhaldssemi.

Hér held ég að við verðum að skilgreina hvers vegna ríkissjóður hefur skilað eins miklum afgangi og raun ber vitni á undanförnum árum. Það er að hluta til vegna þeirrar þenslu sem verið hefur í samfélaginu, að verulegu leyti af völdum stjórnarinnar. Við horfum til stóriðjunnar, við horfum til þess að viðskiptahallinn á Íslandi nánast allar götur frá aldamótum hefur verið geigvænlegur. Á árinu 2006 nam hann 25–26%, fjórða hver króna. Og þessi mikla lántaka erlendis umfram efni hefur kynt undir verðbólgubál hér í landinu, mikla umsetningu, mikla veltu, mikla þenslu sem hefur síðan fært ríkissjóði miklar tekjur. Mikill og aukinn innflutningur eykur streymið niður í hirslur ríkissjóðs svo dæmi sé tekið. Þetta er náttúrlega það samhengi hlutanna sem við verðum að skoða.

Þá hef ég verið hvatamaður þess að við förum að endurmeta afstöðu okkar og hrifningu sem hefur verið yfir því að ná skuldum ríkissjóðs niður. Ég er alla vega orðinn mjög þenkjandi um þetta. Að sjálfsögðu finnst manni gott þegar sá sem skuldar, hvort sem það er ríki, sveitarfélög eða aðrir, nær því marki að lækka skuldastöðuna. En hún getur komið í bakið á okkur annars staðar og þá ber okkur að endurmeta stöðuna og við þurfum að skoða þessi mál heildstætt.

Staðreyndin er sú að á sama tíma og ríkissjóður hefur náð skuldum sínum niður þá hafa skuldir margra sveitarfélaga aukist að hlutfalli til og skuldir heimilanna og skuldir þjóðarbúsins eru nú meiri en dæmi eru um í sögunni. Það sem við stöndum frammi fyrir núna er hvort við fáum þessa óhagstæðu skuldastöðu í bakið.

Hæstv. forsætisráðherra var að lofa því á aðalfundi Seðlabankans um daginn að ríkissjóður, skattborgarinn, mundi koma bönkunum til hjálpar ef í nauðir ræki. Með öðrum orðum segir hann að skuldastaða þjóðarbúsins í heild sinni, ekki bara ríkissjóðs og sveitarfélaganna heldur fyrirtækjanna í landinu, komi okkur öllum við. Þetta er að sjálfsögðu nokkuð sem við þurfum að ræða.

Við þurfum þá líka að gera það í þessum sal og þegar við horfum til ríkisfjármálanna almennt og hversu hyggilega ríkisstjórnin og ríkisvaldið hefur beitt þeim tækjum sem ríkisvaldið hefur til að stýra áherslum í efnahagslífinu.

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins vekja máls á þessu áður en umræðunni lýkur því að ég vil ekki að henni ljúki með þeim orðum og staðhæfingum hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin hafi farið hyggilega að ráði sínu á undanförnum árum. Það hefur hún ekki gert.