135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

528. mál
[17:35]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og það eru nokkur atriði sem þar er tekið á. Í fyrsta lagi eru samningar um séreignarsparnað gerðir sveigjanlegri og það er ágætt, ekkert við því að segja að hægt sé að segja þeim upp með styttri fyrirvara en í dag. Síðan er fjallað um að erlendir aðilar geti fengið séreignarsparnaðinn endurgreiddan ef þeir vilja við brottför úr landi, og það er eðlilegt því að þeir geta m.a.s. fengið sameignarinneignina endurgreidda, sem er þó miklu mikilvægari frá sjónarhorni ríkisins og tryggingarþarfar launþegans.

Það sem kannski er athyglisverðast í þessu frumvarpi er 3. gr. sem gerir ráð fyrir því að menn geti hafið töku lífeyris fyrr og frestað töku lífeyris til 75 ára aldurs, og það vildi ég gjarnan ræða dálítið betur. 67 ára aldurinn, sem notaður hefur verið í almannatryggingum sem viðmiðun og mjög víða, var tekinn upp þegar Bismarck tók fyrst upp lífeyriskerfi 1870, held ég að það hafi verið. Þá var meðalaldur hermanna um 67 ár þannig að hann var í rauninni ekki að gera neitt voðalega gott því að fólk gat farið að hefja töku lífeyris um það leyti sem það að meðaltali dó eða þeir hermenn sem nutu þessara trygginga. Svo var það víkkað yfir á iðnaðarmenn og verkamenn og slíka. Meðalaldur fólks var miklu lægri þá, lífslíkurnar miklu lægri og ellilífeyrisaldurinn var svona við það þegar meðaljóninn dó.

Nú hefur þetta breyst allverulega og meðalaldurinn er orðinn miklu hærri en við höldum okkur enn við þessi mörk og ég held að það sé mjög skaðlegt. Ég held að fólk taki við þeim skilaboðum sem þjóðfélagið gefur því. Ef einhver er löggilt gamalmenni fer hann að hegða sér eins og löggilt gamalmenni, hann fer að hegða sér eins og gamalmenni þó að hann sé það ekki og það er ekki gott mál. Ég held að við eigum miklu frekar að horfa á það að fólk er miklu sprækara í dag, sumir vinna til áttræðs, níræðs, og mér finnst það allt í lagi. Hafi menn gaman af vinnunni eiga þeir bara að sinna því. Ég mundi gjarnan vilja að það yrði skoðað í hv. nefnd, sem fær frumvarpið til skoðunar, að þessi mörk verði jafnvel hækkuð upp í 80 ár eða jafnvel engin efri mörk þannig að menn geti bara valið hvenær þeir vilja fara á eftirlaun eftir að þeir öðlast rétt til þess. Að sjálfsögðu hækkar þá lífeyririnn sem því nemur. Fólk er margfalt sprækara í dag en það var 1930 þegar 67 ára reglan var sett inn í almannatryggingalögin og það er ólíku saman að jafna. Ég held að við eigum að taka mið af því og leyfa fólki, þeim sem vilja, vinna áfram, því að fyrir mjög marga er vinnan allt annað en kvöl og pína. Hún er hlutverk, félagsskapur o.s.frv.

Það hefur líka sýnt sig á könnunum erlendis, alla vega þegar ég var í námi, að dánarlíkur aukast mjög mikið við það að fólk fer á ellilífeyri, það bara deyr úr leiðindum, það er þannig að hafa ekki hlutverk. Ég held því að við ættum að skoða það að fara afnema þetta alveg. Ég mundi gjarnan vilja í leiðinni líka breyta lögum þannig að ekki megi segja fólki upp vegna aldurs, það verði sem sagt óheimilt að nota það sem ástæðu til að segja fólki upp.

Það að senda sjóðfélögum yfirlit með rafrænum hætti, það er bara verið að nálgast raunveruleikann í nútímanum. Svo komum við að því atriði sem meginefni frumvarpsins snýr að, að lífeyrissjóðum sé heimilt að lána verðbréf og þar þurfa menn að vera mjög varkárir. Lífeyrissjóðirnir eru jú til þess að standa straum af því þegar fólk getur ekki lengur unnið vegna elli eða örorku og það er mjög mikilvægt að þar sé gætt ýtrasta aðhalds og ýtrustu íhaldssemi í að taka áhættu, menn þurfa að vera mjög varkárir. Reyndar er sagt að það eigi að vera tryggingar í formi verðbréfa sem eiga að standa undir því láni sem fólk tekur. Það má vel vera, ef þetta er vel undirbúið og vel unnið, að þarna geti myndast ákveðinn tekjustofn fyrir lífeyrissjóðina, en ég mun í nefndinni leggja áherslu á að þetta sé gert mjög tryggilega þannig að þeirri miklu tryggingu íslenskra launamanna sem lífeyrissjóðirnir eru sé ekki ógnað — þeir eru kannski eitt af aðalsmerkjum íslensks atvinnulífs og efnahagslífs og hafa verið byggðir upp með miklum þrautum. Ég nefni að það var ekki létt þegar verðtryggingin var tekin upp og vextir voru hækkaðir mjög mikið, það var ekki létt fyrir lántakendur, það eitt er víst. Það voru mynduð samtök hérna, Sigtúnshópurinn og fleiri, sem kvörtuðu undan verðtryggingunni á sínum tíma. Menn þurfa því að fara mjög varlega með þennan sparnað og gæta hans eins og sjáaldurs auga síns, hann þarf að vera öruggur númer eitt, tvö og þrjú.