135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

528. mál
[17:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. tveimur síðustu ræðumönnum að það þarf að fara mjög varlega í þessu efni. Ég vil hins vegar benda á að þessi heimild snýr ekki bara að skortsölu. Það er fleira sem þarna hangir á spýtunni og annars konar viðskipti sem hægt er að eiga með verðbréf en þau sem snúa að skortsölu. En vissulega væri það hluti af því sem þarna kæmi til greina.

En við verðum þá að horfast í augu við það að skortsölur eiga sér stað í dag. Þarna væri verið að setja lífeyrissjóðunum, sem eru sennilega stærstu fjárfestar þjóðarinnar, skilyrði um það hvernig ætti að standa að þessu og þetta ætti að fara um skipulagðan markað þar sem tilteknir aðilar sæju um að skipuleggja. Þetta mundi því örugglega hvetja til þess að slíkur markaður yrði til þannig að skortsölur yrðu mun ljósari en þær eru í dag.

Slíkir skipulegir markaðir eru til annars staðar þannig að upplýsingar liggja fyrir um hvað þar er að gerast en á það hefur skort hjá okkur. Það var tvennt sem ég vildi bæta við með þessu andsvari að það er um fleiri hluti að ræða, það eru aðrar tegundir af viðskiptum með bréf en bara skortsölur og þetta mundi leiða til þess að um skortsölur sem þegar eiga sér stað yrði til skipulegur markaður.