135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

528. mál
[17:49]
Hlusta

Dögg Pálsdóttir (S):

Frú forseti. Það er 3. gr. þessa frumvarps sem kallar mig hér í ræðustól til að fara um hana nokkrum orðum. Í greininni eru gerðar tillögur um breytingar á 14. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ég tel báðar þessar breytingar til verulegra bóta því þær auka sveigjanleika einstaklinga sem hlýtur að vera það sem við viljum stefna að í þessum málum.

Varðandi a-liðinn þá er lagt til aukið svigrúm til sjóðfélaga til að flýta eða fresta töku lífeyris og ég tel að þar sé farinn ákveðinn meðalvegur sem er farsæll og ég get ekki tekið undir orð hv. þm. Péturs Blöndals um að það eigi að ganga lengra í þessu en hér er gert. Ég leyfi mér líka að gera athugasemd við það að halda því fram að bara af því að fólk verði sjötugt eða 67 ára eða hvaða aldur er nú miðað við þá fari einstaklingarnir að haga sér eins og gamalmenni.

Það kann að vera að svo hafi verið hér áður en það er ekki lengur þannig og það er fjöldi fólks sem komið er um og yfir sjötugt sem nýtur eftirlaunaáranna. Það nýtur þeirra einmitt af því að það hefur getað farið á eftirlaun. Það þarf ekki að vinna lengur, vill ekki vinna lengur og fólk á kannski ekki að hafa allt of mikið svigrúm til þess að eiga þess kost að vinna lengur því sumir taka því svo að þá eigi þeir að vinna lengur. Ég tel því að sú breyting sem þarna er gerð sé af hinu góða og að ekki sé ástæða til að afnema þau mörk sem þar eru.

Aðalerindi mitt er hins vegar að fjalla um b-liðinn í 3. gr. sem er breyting á fyrri málsgrein 14. gr. laganna. Þar er líka verið að auka sveigjanleika sjóðfélaga og maka þeirra til þess að semja sín í milli um að skipta lífeyrisréttindum en með mökum er jafnt átt við þann sem er maki með giftingu, í staðfestri samvist eða í óvígðri sambúð, eins og skýrt kemur fram í lögunum. Það er fjallað um það í greinargerðinni að þessi heimild hafi verið lítið notuð og því velt fyrir sér hvort skýringin á því kunni að vera það tímaskilyrði sem hér er verið að fella niður.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, og byggi það á reynslu minni úr öðrum störfum mínum, að þetta hafi ekkert með tímaskilyrðið að gera. Þetta snýst annars vegar um það að fólk þekkir þessa heimild ekki. Hún er nánast ekkert kynnt og það er ekki nema brotabrot af fólki sem er í þessari stöðu sem veltir þessu fyrir sér og vill skipta þessu, þ.e. fólk við sambúðarslit eða hjúskaparslit eða slit á staðfestri samvist. Það veit nánast enginn af þessari heimild og ég held að nefndin ætti ef til vill að kanna það þegar málið verður tekið þar til umfjöllunar hvort ástæða sé til þess að setja einhvers konar fyrirmæli til sjóðanna um að kynna þessa heimild betur því hún er nánast óþekkt. Ég fullyrði það.

Aðalástæðan fyrir því að þessi heimild er ekki notuð er hins vegar bara sú að þetta er heimild en ekki skylda. Og þá rekum við okkur á 102 gr. hjúskaparlaga sem segir það alveg skýrt að ef fólk vill halda lífeyrisréttindum utan skipta þegar það skilur, þá bara heldur það þeim utan skipta. Það er jú heimild til þess að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort fólk eigi rétt á einhverju fúlgufé að álitum. Dómstólar og Hæstiréttur hafa farið ákaflega varlega í það að dæma mökum slíkt þó að lífeyrisréttindi séu mjög ójöfn. Þess vegna vildi ég kannski hafa það sem aðalskilaboð mín í þessu innleggi að ég held að það sé orðið löngu tímabært að endurskoða það með hvaða hætti lífeyrisréttindi skiptast þegar kemur að hjónaskilnaði og þess vegna jafnvel sambúðarslitum og velta því fyrir sér hvort eigi að heimila fólki að hafa þessi réttindi utan skipta eins og nú er. Því það er nú einu sinni svo að þegar kemur að því að fólk fer að rífast um þessa hluti og aðra peninga sem þarf að skipta þá gleyma því allir að þeir mega og þeir vilja ekki. Þetta var aðalinnlegg mitt í þessu máli en kynninguna á heimild til að semja um skiptingu lífeyrisréttinda má örugglega bæta.