135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

528. mál
[17:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega alltaf mjög áhugavert að ræða lífeyrislöggjöfina því þar er af fjöldamörgu að taka þótt þetta frumvarp gangi fyrst og fremst út á fjármálaleg málefni lífeyrissjóðanna, þ.e. hvað þeim er heimilt og t.d. segir hér í upphafi að þeir megi fjárfesta allt að 25% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfalánum og hér er líka talað um tryggingar og annað slíkt.

En ég ætlaði ekki að ræða það sérstaklega, hæstv. forseti, heldur um lífeyrissjóðina almennt og þau réttindi sem þar eru. Hv. síðasti ræðumaður hér í stólnum vék réttilega að því að lífeyrisréttindi stétta eru misjöfn og ég hef nokkrum sinnum vikið að því í þessum ræðustól að þau væru mjög misjöfn. Ég hef t.d. nefnt stéttir eins og sjómenn og bændur þar sem eiginkonan hefur oft og tíðum lent í því að eiga tiltölulega lítil lífeyrisréttindi, oft og tíðum nánast engin lengi framan af ævi en fólk fer oft ekki að afla tekna svo neinu nemur fyrr en börnin eru uppkomin og farin af heimilinu. Þar af leiðandi verða lífeyrisréttindi þessa fólks mjög misjöfn eftir stöðu þess því það hefur greitt mjög misjafnlega inn í lífeyrissjóðina og nánast allir lífeyrissjóður okkar í dag eru þannig uppbyggðir að menn eignast lífeyrisréttindin í hlutfalli við inngreiðslur. Síðan er auðvitað ávöxtun sem er einnig áhugaverður þáttur til að ræða og hvernig með hana er farið.

Í desember síðastliðnum gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um lífeyrisréttindi þar sem sótt var inn í réttarkerfið um það að dæma það að eign í lífeyrissjóði væri ekki bara eingreiðsla heldur væru það fjármagnstekjur og þann þátt ætti að skattleggja sem fjármagnstekjur. Héraðsdómur dæmdi hins vegar, eftir því sem ég best veit er ekki búið að afgreiða málið í Hæstarétti, að ekki væri sýnt fram á það með nægum rökum að inneignin í lífeyrissjóðnum og greiðslan þaðan sem myndaðist vegna uppsafnaðs stofns í lífeyrissjóðnum væru fjármagnstekjur heldur væru þetta atvinnutekjur eða atvinnutengdar tekjur.

Þegar við sitjum uppi með svona dóm eins og féll í Héraðsdómi Reykjavíkur varðandi þetta mál, hæstv. forseti, þá kemur auðvitað upp alls konar þankagangur og verður fróðlegt að sjá hvaða niðurstaða kemur út úr Hæstarétti í því vegna þess að Héraðsdómur gerir þá kröfu að viðkomandi sýni fram á að hluti af greiðslunum sé beinlínis vegna fjármagnstekna og þá ætti náttúrlega að vera hægt að reikna það dæmi út í viðkomandi tilfelli. En það verður fróðlegt að vita hvort Hæstiréttur tekur undir það að um fjármagnstekjur sé að ræða.

En ef við eigum að líta á þennan dóm og segja að þetta sé rétt og sennilega verði niðurstaða Hæstaréttar sú að þetta séu atvinnutengdar tekjur og þar af leiðandi verði litið á þetta sem atvinnutekjur og þær skattlagðar sem slíkar, þá kemur auðvitað upp spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna eftir að lögunum um almannatryggingar hefur verið breytt: Eiga menn þá ekki rétt á að hafa tekjur úr lífeyrissjóði, af því tekjurnar eru skilgreindar sem atvinnutekjur, án þess að þær valdi skerðingu hjá Tryggingastofnun ríkisins? Það var nýlega sett í lög, hæstv. forseti, að atvinnutekjur skertu ekki tekjur frá almannatryggingum og ef Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að það sé alveg ótvírætt að tekjumyndun sjóðfélaga í lífeyrissjóði séu atvinnutengdar tekjur en ekki að neinu leyti fjármagnstekjur þá hljótum við að skilgreina þetta líka þannig að lífeyrissjóðstekjur eigi að skilgreina sem atvinnutekjur og þá er komin upp sú staða, miðað við núgildandi löggjöf sem nýverið hefur verið sett hér á hv. Alþingi, að menn ættu að mega að hafa 100 þús. kr. út úr lífeyrissjóði án þess að fá neinar skerðingar frá Tryggingastofnun ríkisins. Það eru nýleg lög héðan frá Alþingi. Það kemur upp mjög áhugaverð spurning til þess að skoða í framhaldi af því ef Hæstiréttur staðfestir að það eigi að líta svo á að lífeyrissjóðstekjur séu að öllu leyti atvinnutekjur og myndist sem slíkar en ekki að hluta fjármagnstekjur. Þetta er nú svona hugleiðing og útúrdúr en mjög áhugaverð spurning, hygg ég, til að velta fyrir sér.

Innvinnsla réttinda í lífeyrissjóðum er mjög mismunandi eftir starfsstéttum. Við getum tekið sem dæmi sjómenn sem stofna til fjölskyldu og sjómaðurinn dvelur langdvölum úti á sjó við að afla tekna. Konan er í landi og hugsar um börn og bú og jafnvel þó að hún reyni að starfa utan heimilis þá er það mjög umhendis að stunda vinnumarkað fyrir konu, kannski með þrjú eða fjögur börn, þegar maðurinn er á sjó. Þar af leiðandi eignast viðkomandi lítil réttindi í lífeyrissjóði og þegar að því kemur að nýta þessi réttindi eins og vikið var hér að áðan varðandi skilnað, þá getur það verið mikið álitamál hvernig á að fara með. Í raun og veru ætti réttarstaða konunnar að vera rík í því tilfelli en það er ekki sjálfgefið að dómar falli svoleiðis.

En þar sem hér er verið að ræða lífeyrislöggjöfina almennt, þ.e. almenna starfsemi lífeyrissjóða, þá held ég að það sé rétt að taka ekknabætur til sjómannaekkna til sérstakrar skoðunar. Og þar sem búið er opna löggjöfina um það þá held ég að það ætti jafnvel að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið um að sá tími sem bætur til sjómannaekkna gildir verði lengdur verulega frá því sem nú er en ekknabæturnar gilda ekki nema í sex ár. Þar til viðbótar eru auðvitað greiðslur ef ekkjan er með ung börn á framfæri, undir 18 ára að aldri, og vafalaust er hægt að sækja þarna viðbót miðað við námskostnað og annað alveg upp í 21 ár.

Ég held samt að þetta sé eitthvað sem verður skoðað núna úr því að verið er að opna lífeyrislöggjöfina á ýmsan hátt eins og hér er verið að leggja til. Ég held líka almennt varðandi efni þessa frumvarps að menn þurfi að hafa góðan vara á sér um það hvað við erum að gera, að við séum ekki að veikja réttarstöðu þeirra sem eiga réttindi sín í lífeyrissjóðunum með því að taka of mikla áhættu með því lánafyrirkomulagi sem hér er verið að leggja upp með. Það verður auðvitað farið vandlega yfir þetta mál í hv. nefnd og skoðuð þar ýmis sjónarmið.

Varðandi hitt atriðið, að opna á það að menn geti valið sér hvenær þeir hefja töku lífeyris þá er það í sjálfu sér alveg góðra gjalda vert. Lífaldur þjóðarinnar er að lengjast, ætli hann sé ekki núna um 82 ár? Það er ekki langt síðan ég var í slagnum í kjaramálunum, á árunum 1970–1980, og þá minnir mig að við höfum verið að tala um 77–78 ár sem meðallífaldur þjóðarinnar. Þjóðin er að verða eldri og vissulega er það svo sem betur fer að margir ellilífeyrisþegar eru sprækir og ekki útkeyrt fólk eins og áður var þegar menn unnu hörðum höndum, langan og erfiðan vinnudag við mjög erfiðar aðstæður eins og voru áður í íslensku þjóðfélagi. Sem betur fer hefur tæknin hjálpað okkur með ýmislegt af þeim erfiðu störfum sem áður voru unnin.

Ég tel fullt tilefni til þess, hæstv. forseti, að vel og vandlega verði gaumgæft hvað lífeyrissjóðunum er heimilt og hvaða tryggingar eru þar á bak við o.s.frv. Einnig held ég að menn þurfi að fara að huga að ákvæðum varðandi lengingu lífeyrisaldursins og ég ítreka líka að það þurfi að huga að ekknabótum en ég held að í mörgum tilfellum sé sá tími sem ekkjur eiga kost á bótum úr tryggingakerfi lífeyrissjóðanna óeðlilega stuttur.