135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:11]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði skuli vera undanþegin stimpilgjaldi að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Er frumvarpið lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 í tengslum við gerð kjarasamninga en þar kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign.

Í frumvarpinu er nánar afmarkað hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að unnt sé að líta svo á að um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði sé að ræða. Skilyrðin eru nánar tiltekið eftirfarandi:

a. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, hafi ekki áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.

b. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, skal vera þinglýstur eigandi að að minnsta kosti helmingi eignarhluta í viðkomandi fasteign.

c. Sú lánsfjárhæð sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skal einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign.

Nátengt þessum skilyrðum gerir frumvarpið ráð fyrir að séu fleiri en einn skuldari útgefendur að skuldabréfi eða tryggingarbréfi skuli niðurfelling stimpilgjalds af skjalinu fara eftir hlut þess skuldara sem uppfyllir skilyrði frumvarpsins um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði. Hafi maki kaupanda og skuldara eða sambúðaraðili áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur þess sem uppfyllir skilyrði frumvarpsins til niðurfellingar stimpilgjalds aldrei vera meiri en sem nemur helmingi af annars ákvörðuðu stimpilgjaldi hins stimpilfrjálsa skjals. Með þessu er verið að horfa til þeirra tilvika þegar hjón eða sambúðarfólk búa saman í íbúðarhúsnæði sem aðeins annar aðilinn er skráður eigandi fyrir.

Í samræmi við lög um stimpilgjald gerir frumvarpið ráð fyrir að þeir aðilar sem hafa á hendi stimplun skjala, sýslumenn og bankar, skuli kanna við ákvörðun um stimpilgjald skuldabréfs eða tryggingarbréfs sem tryggt er með veði og gefið út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði hvort skilyrði frumvarpsins um niðurfellingu stimpilgjalds séu uppfyllt. Er það fyrirkomulag í samræmi við önnur ákvæði laganna um stimpilgjald. Þar sem í frumvarpinu er lagt til að niðurfellingarheimildin nái til skuldabréfa og tryggingarbréfa til fyrstu íbúðarkaupa sem tryggð eru með veði í fasteign fara öll slík skjöl eðli máls samkvæmt til þinglýsingar hjá sýslumanni. Með því er tryggt að eftirfylgni með framkvæmd niðurfellingarinnar sé í raun á einni hendi, þ.e. á hendi sýslumanna. Er þetta fyrirkomulag sem áður segir í samræmi við hlutverk sýslumanna samkvæmt lögum um stimpilgjald þar sem þeim ber að fylgjast með því að þau skjöl sem þeim berast séu rétt stimpluð og til dæmis hvort þau falli undir 35. gr. laganna þar sem talið er upp hvaða skjöl eru stimpilfrjáls. Sýslumenn hafa því þegar slíkt mat með höndum, um töku stimpilgjalds eða niðurfellingu þess.

Til að sannreyna að skilyrði niðurfellingar séu til staðar skulu eftirfarandi gögn að jafnaði liggja fyrir, en þau geta fulltrúar sýslumanns kallað fram:

a. Afrit af þinglýstum kaupsamningi, afsali eða annarri eignarheimild sem hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út til fjármögnunar kaupa á.

b. Staðfesting úr Landskrá fasteigna að kaupandi hafi ekki áður verið skráður sem þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.

c. Staðfesting um hjúskaparstöðu kaupanda og hvort maki hans eða sambúðaraðili hefur áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.

Á undanförnum árum hafa tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi verið óvenjumiklar, einkum vegna mikilla umsvifa á fasteignamarkaði. Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins nam innheimta á stimpilgjaldi 6,2 milljörðum króna á árinu 2007. Þar af nemur innheimta stimpilgjalds af lánum sem tekin voru vegna fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði um 600 millj. kr., lauslega áætlað. Fyrir liggur að umsvif á fasteignamarkaði hafa dregist verulega saman á undanförnum mánuðum. Það þýðir að áætlað tekjutap ríkissjóðs af stimpilfrelsi skuldabréfa og tryggingarbréfa vegna kaupa á fyrstu fasteign verður væntanlega umtalsvert minna en innheimt var af þeim stofni á árinu 2007. Við eðlilegar markaðsástæður má ætla að sú fjárhæð geti numið allt að 500 millj. kr. á ársgrundvelli.

Lagt er til að gildistaka frumvarpsins verði 1. júlí 2008 þar sem að framkvæma þarf ákveðnar kerfisbreytingar til að opna fyrir aðgengi sýslumanna að Landskrá fasteigna í tengslum við sönnun á því að um fyrstu fasteignakaup sé að ræða.

Frú forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umræðu að aflokinni þessari umræðu.