135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um stimpilgjald. Ég hef löngum haldið því fram að þetta sé afskaplega úreltur skattur og eigi engan rétt á sér í nútímaþjóðfélagi. Þetta er einhver mjög gömul leifð frá fornri tíð.

Ástandið hefur verið þannig á fasteignamarkaði að verð hefur hækkað mjög mikið í kjölfar þess að vextir lækkuðu. Vextir lækkuðu umtalsvert og framboð á fjármagni jókst mjög mikið. Allt að 100% og verð hækkaði mjög mikið. Í þeirri stöðu var mjög rangt að fella niður stimpilgjaldið vegna þess að það var í rauninni eina bremsan á enn meiri hækkun á fasteignaverði. Því miður gátu menn ekki lofað því því að það hefði valdið meiri vandræðum með hækkun á fasteignaverði.

Ég hélt fund í efnahags- og skattanefnd fyrir viku til að ræða efnahagsmálin almennt og þar voru menn ekki á einu máli um það hvort kreppa væri á Íslandi eða ekki, eða jafnvel þensla. Sumir héldu því fram að enn væri þensla á húsnæðismarkaðnum og verðið væri ekkert farið að lækka. Aðrir héldu því fram að það væri engin þensla og verðið mundi fljótlega lækka. Ég tel að við þurfum að hinkra dálítið við. Um leið og verð fer að lækka þannig að það sjáist, að ábyggilegar vísbendingar séu um það, getum við að sjálfsögðu farið að skoða það að fella þennan skatt niður en fram að þeim tíma er það ekki skynsamlegt.

Sú lausn sem hér er farin er að miða við fólk sem ekki hefur átt íbúð áður — það þarf kannski að taka á því, þegar börn eru gerð að þinglýstum eigendum, sem stundum gerist, er kannski ekki réttlátt að refsa þeim seinna fyrir að hafa einhvern tímann átt íbúð með pabba sínum eða mömmu, ég held það þurfi kannski að skoða það í nefndinni. En hér er sem sagt verið að opna smáglufu í því að lækka stimpilgjaldið með það að sjónarmiði að enn sé þensla.

Lítið hefur verið talað um önnur vandamál sem ég er dálítið hissa á. Hverjir borga stimpilgjald að mestu að ósekju? Það er vanskilafólk. Vanskilafólk lendir í því aftur og aftur að vera í vanskilum og getur ekki borgað. Það er gert upp og það eru gefin út ný skuldabréf o.s.frv. og alltaf tikkar stimpilgjaldið. Þetta er skuldaraskattur. Hann er afskaplega slæmur fyrir það fólk sem er kannski hvað verst sett. Það má skoða það að fella þann skatt niður, ekki held ég að það valdi mikilli þenslu þó að hann yrði felldur niður.

Þetta er einnig mjög slæmt fyrir alla skammtímafjármálagerninga. Þeir eru eiginlega útilokaðir með stimpilgjaldi. Þeir sem starfa á markaði og gefa út bréf til tveggja daga, það er fráleitt að reikna stimpilgjald nema menn ætli að fara leið Seðlabankans með endurhverfuviðskiptin þar sem Seðlabankinn notar skuldabréfin aftur og aftur til að komast hjá því að borga stimpilgjald — það er skattahagræðing mundu sumir kalla það. Stimpilgjaldið er mjög slæmur skattur yfirleitt og ég legg til að menn sjái til með það hvernig verð á fasteignamarkaðnum þróast og ræði það hver með sér hvort þar sé þensla eða ekki. Um leið og menn telja að þenslan sé horfin á fasteignamarkaðnum og verðið sé raunverulega farið að lækka getum við farið að skoða það með hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki megi víkka þetta út þannig að stimpilgjald verði alveg fellt niður. Það þýðir auðvitað tekjutap ríkissjóðs og þá þurfa menn að vita af því og þekkja það.

Einnig hefur verið bent á frestinn 1. júlí. Ég held að það sé rétt að nefndin skoði hvaða áhrif það hefur á fasteignamarkaðnum. Fólk sem er að kaupa sér fyrstu íbúð er svo sem ekki stór hluti af honum. Það er mjög mikið um að fólk hafi keypt áður, sé að stækka við sig o.s.frv. Ég veit því ekki alveg hvað það hefur mikil áhrif. Auðvitað eru slík áhrif slæm en þau mundu þá væntanlega flýta fyrir því að verðið lækki og þá kannski flýta fyrir því að hægt sé að taka upp almennari lausnir.

Ég vil svo benda á að til er lánafyrirkomulag sem ekki er stimpilskylt og það er yfirdrátturinn. Það er dálítið merkilegt að hann er ekki stimplaður og þar geta menn skuldað án gjalddaga sem er mjög mikill ósiður. Ég held að það sé nánast óþekkt erlendis að einstaklingar noti yfirdrátt en það er algengt hér, allt of algengt. Ég tel að einstaklingar eigi ekki að nota yfirdrátt fyrir utan það hvað vextirnir eru óheyrilega háir þá er um að ræða lántöku án gjalddaga og það er mjög óeðlilegt form fyrir einstaklinga.

Ég gleðst yfir frumvarpinu eins og öðrum sem hníga í þá átt að lækka skatta. Ég vil lækka skatta þó í litlum skrefum sé.