135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:09]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni að opinberar tölur segðu okkur að enn sé talsverð þensla, þ.e. hátt verðbólgustig. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti áðan að tekjur ríkissjóðs væru umfram áætlun. Enn er í pípunum ýmislegt sem bendir til þenslu.

Hins vegar sagði ég einnig að þegar menn horfa til lengri tíma, þegar menn horfa til framtíðar og meta hugsanlegar afleiðingar af þeirri alþjóðlegu lausafjárkreppu sem verið hefur þá sé líklegt að þyngri byrðar muni falla á ríkið á næstu mánuðum, jafnvel í eitt eða tvö ár. Við því er verið að bregðast. Tekjur ríkissjóðs lækka. Það er verið að auka útgjöld ríkissjóðs í framkvæmdum. Þessu er mætt.

Það er kórrétt að stimpilgjaldsmálið sem hér er flutt er til að uppfylla loforð sem gefin voru vegna kjarasamninga. Hins vegar er yfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna í stjórnarsáttmálanum skýr um að stimpilgjöld verði felld niður á þessu kjörtímabili, hvort það gerist í maí eða september eða desember, á tíminn eftir að leiða í ljós.

En málið á eftir að fara til efnahags- og skattanefndar. Þar á eftir að fara yfir þá tæknilegu útfærslu sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, um það hvort hægt verði að vinna þetta tæknilega. Á sama hátt verður farið yfir þróun á fasteignamarkaðnum og eins metið hvernig staðan er í efnahagslífinu til að bregðast við. Ég fór yfir það áðan í stuttri ræðu um þetta tiltekna mál. Ég saknaði þess að hv. þingmaður skyldi ekki fagna þessari stefnumótun og fremur fjalla um aukaatriði.