135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:32]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku kvað hæstv. umhverfisráðherra upp úrskurð um kæru Landverndar á tilteknum þáttum vegna umhverfismats framkvæmda í Helguvík. Þó að við séum mörg sem teljum þær framkvæmdir misráðnar af umhverfislegum sem efnahagslegum forsendum verðum við auðvitað öll að lúta landslögum í því efni. Hins vegar hafa vakið athygli mína nokkuð háværar yfirlýsingar forustumanna Vinstri grænna síðustu daga um þetta mál. Því beini ég máli mínu til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og vil inna hann eftir skoðunum hans á stóriðju og þá sérstaklega því sem víkur að framkvæmdum við Helguvíkurálver.

Ég vil rifja upp að í viðtali 16. maí sl. sagði hv. þingmaður þegar hann var spurður hvort Vinstri hreyfingin – grænt framboð mundi ekki fara fram með kröfu um stopp í Helguvík, að það þýddi ekkert að fara fyrir fram með „últimatum“ eða úrslitakost í slíkar viðræður, þ.e. stjórnarmyndunarviðræður, þá gætu menn alveg eins sleppt því. Hv. þingmaður var það bljúgur á biðilsbuxunum þá að hann sagði að ef það væri ekki tæknilega og lagalega hægt að stoppa Helguvík þá stæðu menn frammi fyrir slíku. Hann sagði jafnframt: Við höfum alltaf sagt að okkar áform væru að bremsa þessa stefnu af og stoppa það sem hægt er að stoppa, það sem er tæknilega og lagalega hægt að stoppa. Hv. þingmaður bætti svo við að það skipti auðvitað máli hvaðan orkan kæmi í þau verkefni sem ekki væri hægt að stoppa.

Hér talaði hv. þingmaður ekki fyrir því að stoppa Helguvíkuframkvæmdir án tillits til laga og réttar og þessi ummæli eru í nokkru ósamræmi við þau svikabrigsl sem hæstv. umhverfisráðherra hefur mátt sitja undir af hálfu vinstri grænna undanfarna daga. Því spyr ég hv. þingmann: Hvort á að taka mark á hófstilltum ummælum hans þegar hann var á biðilsbuxunum í stjórnarmyndunarviðræðum 16. maí sl. eða þessum hástemmdu yfirlýsingum sem maður hefur mátt heyra frá þingflokki Vinstri grænna síðustu daga?