135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Atvinnumál á Suðurnesjum eru mjög brothætt þessa dagana. Þorskniðurskurður um 60 þúsund tonn hefur haft áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að hæla sér af mótvægisaðgerðum til að laga og lækna stöðu á Suðurnesjum sem og annars staðar hringinn í kringum landið og þær hafa ekki skilað sér til fólksins sem þarf á þeim að halda. Herinn er farinn burt, húsbyggingar eru að dragast saman en mikill uppgangur hefur verið á undanförnum árum á Suðurnesjum öllum varðandi húsbyggingar stórar og smáar. Nú er sem sagt farið að dragast saman á því sviði og væntanlega stoppar það þegar líður á árið þannig að við þurfum á atvinnuuppbyggingu að halda og við þurfum á álveri að halda í Helguvík. Það er engin spurning um það. Við eigum að nýta auðlindir okkar, við eigum að nýta þær auðlindir sem við eigum í bæði Svartsengi og á Reykjanesinu öllu og búa til verðmæti úr því, búa til atvinnu handa fólki og gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. Við eigum ekki að sitja hjá og halda að það sé lausnin. Við erum ekki að eyðileggja þessar auðlindir þótt svo við nýtum þær. Við þurfum að muna að fólkið er hluti af náttúrunni og það þarf að geta lifað. Þess vegna segi ég hiklaust að sem betur fer hefur vilji umhverfisráðherra ekki náð fram að ganga. Hún hefur þurft að beygja sig undir það að leyfa — og mun væntanlega leyfa mengunarkvóta til álversins í Helguvík.