135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:52]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki komið til tals að rjúfa þing og boða til kosninga vegna stjórnarskrárbreytinga, þannig að því sé nú strax svarað. Ég get auk þess sagt það sem mína skoðun, og ég held míns þingflokks, að við teljum ekki ástæðu til að telja upp þær atvinnugreinar í stjórnarskránni sem við viljum sjá þrífast hér á Íslandi. Það á við hvort sem við erum að tala um álver, járnblendi, netþjónabú, álþynnuverksmiðju — ef við erum að tala um þessar nýju orkufreku atvinnugreinar — og um fiskimjölsverksmiðjur, um verslunarhúsnæði, um menningarhús eða aðrar þær framkvæmdir sem við erum með hér á landi. Ekki er ástæða til að nefna þessar atvinnugreinar sérstaklega í stjórnarskrá.

Stjórnarskráin eru almennar reglur sem borgararnir byggja á og við (Gripið fram í: … stjórnarskrárbreytingar.) viljum auðvitað byggja þjóðríki okkar á. Stjórnarskrárbreytingar í þessa veru sé ég ekki gerast — ég hélt ég væri búin að svara því, hv. þingmaður, þú hefðir ekki þurft að kalla það fram í. Við verðum að bera mikla virðingu fyrir stjórnarskrá og efnisinnihaldi hennar. Ég sé ekki ástæðu til að taka ákvæði í þessa veru inn í stjórnarskrána svo ég lýsi persónulegri skoðun minni á því, hv. þingmaður.