135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Stóriðjumál þau sem hér eru til umræðu eru vissulega mikilvæg. En það er raunalegt að hlusta á að í rauninni er enginn meiri hluti í þinginu, það er engin stefna til og hér er hver höndin upp á móti annarri.

Í rauninni gengur það nú þvert á flokka því stuttu áður en hæstv. umhverfisráðherra gaf út yfirlýsingu um að ráðast mætti í álversuppbygginguna í Helguvík eða gaf frá sér kæru Landverndar, svo rétt sé með það farið, (Gripið fram í: Vísaði henni frá.) vísaði henni frá, þá hafði það gerst að hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafði lýst því yfir á fundi í Keflavík að sjálfsagt væri að snúa stefnunni við og stefnan Fagra Ísland ætti ekki lengur við vegna þess að breyttar aðstæður væru í atvinnulífinu.

Skömmu síðar höfðum við síðan fyrir okkur yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar sem gekk í allt aðra átt. Þannig að hér er talað í ýmsar áttir frá sama flokknum og svo lýsir Sjálfstæðisflokkurinn því yfir að ekkert hafi verið að marka yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra um það að til standi að fara í stjórnarskrárbreytingar.

Ég er raunar talsmaður þess að við skoðum stjórnarskrá okkar. Sérstaklega er mér það kappsmál að við komum þar inn með virkum hætti baráttumáli okkar framsóknarmanna um auðlindir Íslendinga. (Gripið fram í.) Það hefur ekki tekist í samstarfi við sjálfstæðismenn og greinilegt er að þeir eru enn fastari fyrir núna gagnvart Samfylkingunni í þessu máli.