135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[14:01]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið. Þetta hefur eiginlega verið skemmtiatriði sem hér hefur farið fram, að hlusta á t.d. stjórnarsinna tala hver í sína áttina í sambandi við mikilvæg mál í þjóðfélaginu. Það er ekkert skrýtið þó að ýmsir velti því fyrir sér hvort þetta samstarf verði á fleiri vetur setjandi, en við skulum sjá til hvernig (Gripið fram í.) það þróast. (Gripið fram í: Það gengur vel í Framsókn.) Það gengur ákaflega vel í Framsókn, það er nú svo gott með það. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Hver hefur orðið? (Forseti hringir.)

Hér er sem sagt komið fram að stefna Samfylkingarinnar, sem kom fram fyrir kosningar, var byggð á ákaflega veikum grunni. Það má þó hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eiga að hann talaði þannig fyrir kosningar að hann var búinn að úthugsa það hvernig hann ætlaði að stoppa stóriðjuframkvæmdirnar, því að hann sagðist ætla að gera það í gegnum eignarhlut eða eignaraðild ríkisins að Landsvirkjun. Samfylkingin gerði sér, held ég, ákaflega vel grein fyrir því að hún gæti ekkert stoppað en engu að síður var því haldið fram af hálfu formanns Samfylkingarinnar og þingmanna að stoppa ætti framkvæmdir í fimm ár.

Síðan gerist það í gærkvöldi, sem er alveg ógleymanlegt, að maður hlustar á talsmann Samfylkingarinnar segja frá því í sjónvarpinu að þetta fimm ára stopp hafi verið hugsað eftir að byggt hefði verið upp á Húsavík og eftir að byggt hefði verið upp í Helguvík. Þá ætti að stoppa í fimm ár. Þetta var nýja útfærslan á Fagra Íslandi og stóriðjustoppinu í fimm ár. Þá var mér nú algjörlega nóg boðið. Ég held að Samfylkingin verði að gjöra svo vel að gera sér grein fyrir því að hún óð reyk í þessari umræðu allri. Nú er hún komin með ábyrgðina, nú er hún í ríkisstjórn og nú held ég að þingmenn hennar ættu bara að taka sig saman í andlitinu og viðurkenna hlutina eins og þeir eru í raun og veru.