135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[14:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í skýrslunni segir, og er vitnað til stjórnarsáttmálans, að nýir hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu séu mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála. Þetta hljómar mjög vel, og hér er ekki sagt „meðal annars“ heldur eru þetta hornsteinarnir ef lagður er venjulegur skilningur í setninguna miðað við orðanna hljóðan.

Það er vissulega svo að ýmislegt hefur þróast með jákvæðum hætti að mínum dómi og þeirra sem deila áherslum með mér í þessum efnum. Að sjálfsögðu ber þar fyrst að telja langþráða brottför bandaríska hersins og þann veruleika að Ísland er í þeim skilningi, a.m.k. ekki með formlegum hætti og að staðaldri, hersetin þjóð lengur. Ýmsar áherslur hafa verið uppi í tíð fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra í sambandi við það t.d. að auka framlög til þróunarsamvinnu, sem að sjálfsögðu er fagnaðarefni, þó að sorglega hægt gangi og mikið betur þurfi að gera, leggja aukna áherslu á málefni kvenna og barna, beina kröftum að uppbyggingu á velferðarsviði og hvað varðar innviði samfélaga eins og á sviði heilsugæslu, skólamála og annað í þeim dúr og allt er þetta vel.

Annað hefur því miður ekki breyst. Nú væri í stráksskap hægt að segja að þetta hljóti að þýða að áður títtnefndir hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu, sem gjarnan var byrjað að telja upp og þá kom gjarnan fyrst samningurinn við Bandaríkin, NATO-aðildin — og svo fóru menn að tala um Norðurlöndin og aðild að Norðurlandaráði eða eitthvað slíkt — séu þá ekki lengur hornsteinar. Ætli það sé ekki bara best að horfa á stefnuna eins og hún birtist og velta því fyrir sér: Eru innstæður fyrir þeim fallegu fyrirheitum sem gefin eru í stjórnarsáttmálanum og aftur eru tíunduð hér í skýrslu utanríkisráðherra? Hvar voru innstæður fyrir ýmsu því sem heitið hefur verið og í orði kveðnu á að vera á sviði utanríkismála þegar utanríkisráðherra og forsætisráðherra fóru til Búkarest á NATO-fundinn, fljúgandi eins og kunnugt er, án þess að hafa samráð um það áður við utanríkismálanefnd hvaða afstaða yrði þar tekin til mikilla og stórra pólitískra deilumála? Það voru a.m.k. ekki miklar innstæður þá fyrir fyrirheitum um aukið samráð, virkt samráð, við utanríkismálanefnd, því að tilkynningarskylda eða minnisblöð eftir að menn eru farnir til fundar eru ekki samráð.

Þar tók Ísland afstöðu til mála sem því miður eru í hróplegri mótsögn við og ósamræmi við þessi fallegu fyrirheit. Er það sjálfgefið að Ísland fylgi bandarískri harðlínustefnu um stækkun NATO til austurs í andstöðu við nágrannaþjóðir, sem Mið- og Austur-Evrópuþjóðir ýmsar innan NATO leggjast gegn vegna þess að óttast er að það hleypi öllu í bál og brand? Ég lagði fram bókun á vettvangi utanríkismálanefndar daginn sem utanríkisráðherra og forsætisráðherra flugu til fundar þar sem ég í fyrsta lagi harmaði það að ekki skyldi vera samráð við nefndina en varaði í öðru lagi við því að íslensk stjórnvöld fylgdu bandarískri harðlínustefnu þegar kæmi að viðkvæmum hlutum, samskiptamálum í Mið- og Austur-Evrópu, eins og fljótræðislegum og illa undirbúnum áformum um aðild Úkraínu og Georgíu að NATO og uppsetningu bandaríska eldflaugavarnakerfisins.

Hvaða afstaða var tekin? Jú, að vísu var aðildarmáli Úkraínu og Georgíu ýtt að hluta til til hliðar. Forsætisráðherra var þó búinn að tjá sig með mjög jákvæðum hætti um að eðlilegt væri að taka þá inn í klúbbinn og Íslendingar hafa almennt stutt útþenslustefnu NATO. Ég veit að ákveðnir þingmenn hafa það að trúaratriði að þetta hafi allt heppnast einstaklega vel og orðið til mikillar blessunar.

Hvað fylgir aðild nýrra ríkja að NATO, hvað er það fyrsta sem menn verða varir við? Hvað verða skattgreiðendur í viðkomandi löndum varir við? Stórauknar kröfur um útgjöld til vígbúnaðar þar sem viðmiðunin er að a.m.k. 2% af landsframleiðslu fari til vígbúnaðar. Bandaríkjamenn skamma aðrar þjóðir fyrir að fylgja ekki sínu fagra fordæmi en þeir verja, eins og kunnugt er, um 4% af vergum þjóðartekjum til vígbúnaðar, um 600 milljarðar bandaríkjadala mun það hafa verið á síðasta ári. Ætli þeir hafi ekki eitthvað annað við fjármunina að gera en að eyða þeim í hergögn í þessum löndum sem eru að reyna að byggja sig upp?

Varðandi Afganistan, það mál var líka á dagskrá, þar virðist hæstv. utanríkisráðherra hafa tekið þá eindregnu stefnu að auka frekar en hitt umsvif Íslands á þeim slóðum, senda fleiri menn undir vopnum og undir stjórn hernaðarbandalagsins NATO til að sinna friðargæslu. Hæstv. ráðherra segir hér að það sé einfalt að svara þeim spurningum af hverju Ísland sé í Afganistan á þessum forsendum. Hvað er svona einfalt við það? Eru hvergi verkefni annars staðar? Er ekki með sama hætti hægt að segja að það sé einfalt að Ísland eigi að vera alls staðar þar sem verk er að vinna, þar sem þarf að sinna þróunarsamvinnumálum?

Hvað er Ísland víða að verki? Við erum í sex löndum, þannig að það er nú dálítið pláss eftir. Við fórum til Mið-Ameríku í fyrsta sinn nú fyrir tveimur árum, til Níkaragva. Níkaragva er næstfátækasta land Mið-Ameríku, Haíti er enn fátækara. Þar er ástandið svo erfitt að menn veigra sér jafnvel við að fara þangað inn vegna stjórnmálaaðstæðna og spillingar og slíkra hluta. En þarf ekki einhver að reyna að hjálpa fólkinu sem enginn vill sinna, er ekki þörfin mest þar? Væri kannski hægt að álykta sem svo að einmitt þar ætti Ísland að reyna að láta gott af sér leiða? Er það sjálfgefið að Ísland sé með vopnaðan liðsafla í Afganistan en ekki á Haíti? Hvað er svona sjálfgefið við það, hæstv. utanríkisráðherra? Ef ég má orða það þannig, frú forseti?

Það þriðja og langalvarlegasta frá NATO-fundinum í Búkarest, sem ég vil nefna, er fyrirvaralaus stuðningur og fagnaðarlæti íslenskra ráðamanna þar — eins og þeir kjósa sjálfir að kalla sig samanber forsætisráðherra hæstv. hér í gær — við uppsetningu bandaríska eldflaugavarnakerfisins í Mið- og Austur-Evrópu. Hvenær var sú stefna tekin í ríkisstjórninni, hvenær var hún ákveðin, hvað þá borin undir nokkurn mann, að Ísland stillti sér fortakslaust og fyrirvaralaust á bak við og styddi hina geysilega umdeildu uppsetningu bandaríska eldflaugavarnakerfisins í Evrópu? Hvenær var það útkljáð á vettvangi Samfylkingarinnar, leikur mér líka forvitni á að vita, að Samfylkingin hefði þessa afstöðu?

Er það til góðs, er það í þágu afvopnunar og friðsamlegri sambúðar þjóða að troða þarna upp þessum radarkerfum og eldflaugum í Evrópu? Nei, það er sumpart að færa Evrópu 30 ár aftur í tímann. Í þágu þess að geta byggt upp stjörnustríð og haldið áfram stjörnustríðsplönum sínum — þetta er skilgetið afkvæmi þeirra — sögðu Bandaríkjamenn upp ABM-samningnum í júní 2002, þeir ýttu honum til hliðar. Þeir sögðu upp einum mikilvægasta afvopnunar- og griðarsamningi í veröldinni til þess að geta haldið áfram að þróa eldflaugavarnakerfi sín, sem augljóslega voru brot á þeim samningi, og boða nú uppsetningu slíkra kerfa í Evrópu með radarstöð í Tékklandi og eldflaugum í Póllandi.

Hvað gerðu Rússar? Þeir sögðu upp á móti samningum um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og boða viðbúnað af sinni hálfu. Hvað er þá að gerast? Jú, við erum að færast inn í vígbúnaðarkapphlaup á nýjan leik. Þetta minnir óneitanlega á níunda áratuginn þegar uppsetning meðaldrægu eldflauganna gerði allt vitlaust í Evrópu og friðarhreyfingarnar miklu risu í kjölfarið. Það yrði þá það eina góða af þessu ef þær efldust á nýjan leik.

Er þetta til góðs? Á Ísland sem vopnlaus og vonandi friðelskandi smáþjóð að stilla sér fyrirvaralaust á bak við þessa haukahugsun frá Bandaríkjunum? Ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra útlisti það hér og skýri frá því hér: Hvenær var sú stefna mótuð af hálfu ríkisstjórnarinnar? Ekki var það rætt við utanríkismálanefnd að þessi afstaða yrði tekin. Var það rætt á vettvangi ríkisstjórnar, var það borið undir þingflokka stjórnarflokkanna, er þessi stefna völduð með þingræðislegum hætti hér, eða hvað?

Það var náttúrlega fleira sem minnti mann á gamla daga eins og þegar hæstv. forsætisráðherra lét koma því heim í fréttir að hann hefði skammað Rússa, notað tækifærið meðan hann skrapp út úr einkaþotunni og skammaði Rússa fyrir að vera að fljúga upp að Íslandi. Það minnti mann á gamla daga þegar Mogginn dró upp svart/hvítu myndirnar af björnunum sem það passaði upp á að hafa á forsíðunni á nokkurra mánaða fresti til þess að réttlæta veru hersins. Er kannski svipaður leikur hér í gangi, að það þurfi að réttlæta nýtilkomin og stórfelld útgjöld til hermála á Íslandi, svokallað loftrýmiseftirlit, NATO-hervæðinguna sem nú stendur yfir. Það er nefnilega þannig, og það er rétt, að ákveðin stefnu- og áherslubreyting er að verða í þessum efnum á Íslandi. Í staðinn fyrir ameríkanseringu, þar sem allt snerist um að halda í Kanann eða hafa hann góðan — treysta á hann og trúa honum og þakka honum fyrir varnirnar — er að koma NATO-væðing og hervæðing íslenskrar utanríkisstefnu. Það er nú þannig.

Um það er fjallað á öðrum stað hér í skýrslunni að öryggishugtakið sé að breytast og um það er ekki deilt. Það er sagt að hugtakið „öryggi“ einskorðist ekki lengur við hervarnir, með leyfi forseta, „tiltekinna svæða heldur er hugtakið miklu víðtækara og nær einnig til aðgerða gegn hinum nýju hnattrænu váboðum.“

Gott og vel og hverjir eru þeir, hinir nýju hnattrænu váboðar? Al Gore spurði að því í morgun í fyrirlestrinum í Háskóla Íslands. Hafa menn þá bara áhyggjur af hryðjuverkum? Skipta umhverfisógnirnar engu máli? Hafa íslensk stjórnvöld bara áhyggjur af einhverjum ímynduðum óvini sem kæmi hugsanlega og réðist á landið? Það mætti ætla það þegar öll orkan fer í að semja við þjóðir um að koma hingað með herþotur og erlenda heri til að vera hér og æfa sig og reka hernaðarhluta ratsjárstöðvakerfisins áfram og í þetta á nú að fara að ráðstafa fjármunum af stærðargráðunni 1,5–2 milljörðum kr. á ári. Bíddu nú við, þjóðartekjur okkar upp á kannski 1.100–1.200 milljarða. Þetta er nú að verða býsna myndarleg prósenta. Kaninn fer nú bara að verða ánægður bráðum. Ef ríkisstjórnin heldur áfram að hækka framlögin til hernaðarútgjalda þá nálgast þau 2% viðmiðið býsna hratt sem Bandaríkjamenn vilja að menn leggi a.m.k. í þetta.

Hver er óvinurinn, ef við veltum þessu fyrir okkur út frá spurningunni um hina nýju hnattrænu váboða? Er það líkleg árás vopnaðs ríkis á Ísland, er það það sem við þurfum að hafa aðaláhyggjur af? Höfum við bara áhyggjur af hryðjuverkum, eins og Al Gore spurði? Nei, ætli það sé nú ekki meiri ástæða til að hafa, hvað alþjóðamálin snertir, áhyggjur t.d. af hinum hnattrænu loftslagsbreytingum og þeim ósköpum sem það mun leiða yfir mannkynið ef svo heldur sem horfir? Er þá Ísland með metnaðarfullum hætti að reyna að sýna einbeitni sína í að leggja sitt af mörkum í þeim efnum? Nei, því miður ekki.

Eini efnislegi hluturinn sem ég hef nokkurn tíma heyrt menn benda á, sem gæti réttlætt einhver aukin umsvif Íslands að þessu leyti, eru siglingar olíuskipa. Það er það eina sem menn hafa getað komið með þegar þeir eru spurðir: Hver er óvinurinn, hver er hættan af þessu tagi? Ja, það er aukin umferð olíuskipa. Ætla menn þá að bregðast við því með herþotum, er það? Væri ekki nær að kaupa dráttarbáta, mengunarvarnagildrur og hafa samstarf við aðrar þjóðir á sviði slíkra hluta? Ég hefði haldið það.

Þegar við lítum okkur nær: Hvað snýr að öryggi okkar og stöðugleika og velferð hér? Eru það utanaðkomandi ímyndaðar hernaðarógnir sem réttlæta það að setja í það hundruð milljóna og milljarða? Ætli væri ekki nær að búa almennilega að lögreglunni, björgunarsveitunum, efla almannavarnir, viðbrögð við eldgosum og jarðskjálftum eða farsóttum og sjúkdómum? Jú, auðvitað. Þessar áherslur eru út í loftið og því miður eru ekki innstæður fyrir fallegu fyrirheitunum um hina nýju og framsæknu utanríkisstefnu að þessu leyti.

Að sjálfsögðu á Ísland að reka virka og sjálfstæða utanríkisstefnu og hafa sjálfstraust og kjark til þess að gera það. Spurningin er ekkert um það. Löng ræðuhöld hæstv. utanríkisráðherra um það eru ástæðulaus, það er enginn ágreiningur um það. Það er ágreiningur um inntakið í stefnunni, um það snýst ágreiningurinn, hvar Ísland skipar sér í sveit, á hvað það leggur áherslu, hvort það er með alvopnaðan liðsafla í Afganistan eða leggur sitt fram á forsendum friðsamlegrar þróunar, uppbyggilegrar þróunaraðstoðar þar sem þörfin er ærin vítt og breitt um heim, því miður. Um það ættum við að ræða meira en ekki sitja föst í þessu gamla fari NATO-væðingarinnar sem nú ræður ríkjum. Og vel að merkja: Það er hið nýja NATO sem verið er að binda (Forseti hringir.) trúss okkar enn fastar við. Það er NATO sem lætur nú til sín taka í fjarlægum heimsálfum (Forseti hringir.) og er árásaraðili en ekki varnarbandalag.