135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[15:11]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ítarlega skýrslu um utanríkismál sem er grundvöllurinn að umræðunni hér í dag. Ástæða væri til að fara yfir býsna margt sem kemur fram í henni en ég afmarka mig við nokkur verkefni þar sem ég kemst ekki yfir öll þau atriði sem ég hefði gjarnan viljað koma inn á.

Ég vil fyrst fagna því sem fram kemur í inngangi skýrslunnar um áhuga ráðherra á góðu samstarfi við utanríkismálanefnd og Alþingi um mótun stefnunnar og það sem verið er að gera á hverjum tíma. Það er afar nauðsynlegt að þingið sé ekki aðeins upplýst um verkefni sem verið er að vinna að á vegum ráðuneytisins og stofnana þess heldur er ekki síður mikilvægt að Alþingi komi að stefnumótuninni, viti um framkvæmdina og geti sett fram sjónarmið sín á einstökum þáttum í framkvæmdinni þegar það á við. Því er afar mikilvægt að samstarf ráðherra og Alþingis verði treyst eins og forráðamenn utanríkismálanefndar hafa reyndar ítrekað hér í þingsölum, og ég tek undir sjónarmið þeirra í þeim efnum.

Ég harma það hins vegar hversu treglega það virðist ganga að hrinda hinum góða hug í framkvæmd sem bæði kemur fram í áherslum forustumanna utanríkismálanefndar og hæstv. utanríkisráðherra. Það má ekki dragast öllu lengur, virðulegi forseti, að það verði af alvöru raunhæft samráð á milli utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra. Í gegnum árin hefur samráð verið lítið sem ekkert og þá meira í formi tilkynninga um það sem gert var og það sem ákveðið var fremur en að Alþingi eða utanríkismálanefnd þess gæti komið að sjónarmiðum sínum í málinu áður en ákvörðunin var tekin, sem ég held að sé mikilvægasti þáttur samráðsins og það sem felst í textanum í ákvæði þingskapalaga um samráð.

Ég vil undirstrika það, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem að málinu koma hrindi í framkvæmd vilja sínum í þessum efnum. Ekki er deilt um stefnu og markmið, það eru allir sammála um það. Það sem upp á vantar er að athafnir séu í samræmi við orð.

Það var afar slæmt að forustumenn ríkisstjórnarinnar skyldu fara til Rúmeníu í síðustu viku án þess að utanríkismálanefnd hefði haft nokkurt veður af þeirri ferð eða haft nokkurt tækifæri til þess að fá upplýsingar um þau mál sem þar átti að taka fyrir og setja fram skoðun sína á þeim áður en ríkisstjórnin tók ákvarðanir sínar og ráðherrarnir fóru til fundarins. Ég er ekki þar með að gagnrýna þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók í málinu. Ég er einfaldlega að halda því til haga, og leggja mjög þunga áherslu á það, virðulegi forseti, að samráðið verði í samræmi við þann vilja sem hefur verið lýst svo vel af beggja hálfu varðandi samráð við utanríkismálanefnd Alþingis.

Í öðru lagi vildi ég aðeins koma inn á það sem hér kemur fram, og áhersla er lögð á af hálfu hæstv. ráðherra, að framfarirnar á Íslandi og alþjóðlega samstarfið haldist í hendur, og ég tek undir það. Við, sem lítil þjóð, getum ekki skapað okkar eigin framtíð ein og sér heldur hljótum við á hverjum tíma að vera háð þeim stuðningi sem við fáum frá öðrum þjóðum sem helst hafa áhrif á framvindu mála á hverjum tíma. Þess vegna hefur það alltaf verið okkur mikilvægt, eins og dregið er fram í skýrslunni, að njóta stuðnings annarra þjóða í þeim málum sem við höfum helst borið fyrir brjósti, t.d. sjálfstæðinu á sínum tíma og útfærslu landhelginnar sem stóð yfir um áratugaskeið. Alþjóðlega viðurkenningin og samstarfið var ákveðinn grundvöllur fyrir framförum hér á landi og því sjálfstæði sem við höfðum í okkar eigin málum.

En við skulum líka halda því til haga, sem er hinn endinn á málinu, að það að hafa sjálfstæðið í okkar höndum, það að taka okkar ákvarðanir út frá okkar hagsmunum hefur skipt miklu máli. Það hefur ekki verið síður mikilvægt atriði í að tryggja framþróunina hér á landi á síðustu öld heldur en alþjóðlega samstarfið, en rækilega er minnt á það í skýrslunni að það hafi verið grundvallaratriði til þess að ná framförunum. Það eru nefnilega tvö atriði í þessu, þ.e. alþjóðlega viðurkenningin og sjálfstæði okkar sjálfra.

Sú vegferð sem við förum í áfram verður að byggjast á því að hafa báða þessa þætti í okkar höndum og láta þá ekki frá okkur í það ríkum mæli að annar þátturinn veikist, þ.e. að við veikjum ekki um of þann þátt sem við höfum í okkar hendi um ákvarðanir. Ég tel t.d., virðulegi forseti, að við mundum veikja þann þátt málsins um of ef við afsöluðum okkur rétti til þess að fara með fiskveiðiauðlind landsmanna eða afsöluðum okkur rétti til annarra til þess að fara með samninga fyrir okkar hönd gagnvart öðrum ríkjum um veiðar úr fiskstofnum við Ísland eða sameiginlegum fiskstofnum Íslendinga við aðrar þjóðir. Ég tel það grundvallaratriði að við höfum forræði á þessum málum í okkar höndum í hvaða alþjóðlega samstarfi sem við kjósum að vera í í framtíðinni.

Við ræddum um Evrópumál hér fyrir áramót og þess vegna er ekki rætt um þau í þessari skýrslu. En ég vildi ítreka þetta vegna þess að ég tel að umræðan um Evrópumál, sem hefur verið mikil á þessu kjörtímabili, muni áfram verða mikil á komandi árum. Menn munu ræða þau mál og vega og meta hagsmuni okkar og að hve miklu leyti innganga í Evrópusambandið komi til með að reynast okkur heillaspor eða ekki. Ég held því að það verði að gera grein fyrir grundvallarþáttum, a.m.k. af minni hálfu og míns flokks, í þeirri umræðu sem óhjákvæmilega er fram undan um þessi mál á næstu árum, og þeir eru á þann veg að forræði mála í auðlindum landsmanna verði ævinlega í okkar höndum. Það er kjarnaatriði í málinu, virðulegi forseti, til þess að umræður um málið geti að öðru leyti farið fram á réttum forsendum, að menn átti sig á þessari afstöðu.

Ég tek t.d. eftir því að áhugasamur prófessor um Evrópuaðild Íslendinga hefur áttað sig á því hvað þetta er mikilvægt atriði og skrifar nýlega mikla grein í Fréttablaðið, líklega í síðustu viku, þar sem hann veltir fyrir sér þessum þætti málsins og hugsanlegum lausnum á því. Og ég held að það séu rétt efnistök og menn eigi að halda áfram á þeirri braut að skoða þennan þátt málsins og velta því fyrir sér hvaða möguleikar eru til þess að fá lausn sem uppfyllir þessar forsendur. Því ef menn verða sammála um þær er auðveldara að sameinast um niðurstöðu. Ef hins vegar er ósamstaða um þýðingu þess að hafa forræði auðlindarinnar í okkar höndum er flóknara mál að ná einhverri breiðri niðurstöðu um málið.

Þetta segi ég, virðulegi forseti, til þess að árétta þau sjónarmið sem fram komu af minni hálfu og míns flokks í umræðunni fyrir áramót sem voru þessi, en líka almennt þau að við teljum að alþjóðasamstarf sé okkur lífsnauðsynlegt til þess að sækja fram, við þurfum á því að halda og eigum að taka þátt í því. Og við útilokum ekkert eitt alþjóðasamstarf umfram annað en setjum okkar forsendur fyrir því.

Varðandi framboð til öryggisráðsins þá er það afstaða Frjálslynda flokksins, sem fram kemur í stjórnmálaályktun hans á síðasta ári, að hann leggst gegn því. En við höfum líka gert grein fyrir þeirri afstöðu okkar að úr því sem komið er, úr því að ríkisstjórnin hefur tekið þessa ákvörðun og kosningabaráttan er hafin, ætlum við ekki að halda okkur fram í þeirri umræðu heldur láta málið liggja á meðan framboðið stendur yfir. Það felst enginn ávinningur í því, að okkar mati, úr því að drjúgur meiri hluti Alþingis stendur á bak við framboðið, að leggja stein í götu þess. En það er hins vegar rétt að halda til haga afstöðu okkar í því máli.

Um utanríkisþjónustuna má auðvitað segja ýmislegt, skipulag hennar og umfang. Það er ljóst, sem fram hefur komið, að hún hefur vaxið mjög á undanförnum árum og svo mjög að mörgum hefur þótt nóg um og jafnvel meira en nóg um. Ég held að það hafi að mörgu leyti verið góð rök fyrir þeirri stækkun utanríkisþjónustunnar á undanförnum árum sem raun ber vitni. Viðfangsefnin eru mörg og ávinningur okkar af því að sinna þeim er töluverður og óumdeildur oft og tíðum þannig að menn eiga ekki að hallmæla þeirri þróun sem verið hefur að öllu leyti.

Við eigum hins vegar að vera með augun opin fyrir því hvernig við beitum utanríkisþjónustu okkar á hverjum tíma. Það getur verið breytilegt eftir verkefnum og aðstæðum og við eigum ekki að neita okkur um að brydda upp á samstarfi við aðrar þjóðir. Mér finnst það vel koma til greina og við eigum að vera áhugasöm um samstarf, t.d. við Norðurlandaþjóðir, um einstök verkefni á sviði alþjóðamála, þróunarsamvinnu og annað slíkt. Við sáum það í Noregi að Norðmenn eru með afar vandaða þróunarstefnu og við gerðum margt verra en einfaldlega að styðja Norðmenn í því og vera þátttakendur með þeim í mörgum verkefnum í stað þess að reka sjálfstæð verkefni.

Mér finnst að við eigum að vera opnir fyrir því að starfa með öðrum þjóðum, hvort sem það eru í ákveðnum verkefnum eða í rekstri sendiráða, við eigum að vera fúsir til samstarfs í sameiginlegum verkefnum sem geta skilað góðum árangri fyrir landsmenn. Við erum ekki nema 300.000 manna þjóð og það er ekki hægt að reka öfluga utanríkisþjónustu á öllum sviðum í öllum löndum. Það er okkur ofviða. Við eigum því að vera ófeimin við að tileinka okkur aðrar lausnir.

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, um Afganistan — það hefur verið umdeilt í þjóðfélaginu hvort Íslendingar eigi að taka þátt í því starfi sem þar fer fram undir forustu NATO eða hvort NATO eigi yfir höfuð að vera þar. Ég er á þeirri skoðun að menn eigi að halda áfram því verkefni sem þar er hafið. Ég tel það rétta ábendingu að þarna sé griðastaður fyrir uppvaxandi hryðjuverkamenn og hryðjuverkasamtök. Þær þjóðir sem þurfa öðrum fremur að varast slíkt eiga hiklaust að beita sér í því að torvelda slíkum samtökum og aðilum störf sín jafnvel þó það sé í fjarlægum löndum.

Það getur verið mjög mikið verkefni og tímafrekt að ná árangri og ég býst við að það sé rétt mat að það taki áratugi að ná fullum árangri í þessum efnum og auðvitað næst hann ekki nema NATO-þjóðirnar nái um framkvæmdina góðu samstarfi við þjóðina sjálfa sem býr í landinu. Ef það tekst, með hennar vilja, að þróa málin áfram í þann farveg sem við vonumst til held ég að menn hafi (Forseti hringir.) farið í för landsmönnum og heiminum til heilla.